mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskveiðar Dana í Norðursjó vottaðar

12. september 2016 kl. 19:01

Þorskur

Stór sigur fyrir danskar fiskveiðar, segir formaður heildarsamtaka í sjávarútvegi.

Heildarsamtök danskra fiskimanna og fiskframleiðenda (Danmarks Fiskeriforening PO) leggja mikið upp úr því að hafa nú fengið þorskveiðar sínar í Norðursjó og Skagerak vottaðar sem sjálfbærar af hálfu Marine Stewardship Council (MSC). 

„Stór sigur fyrir danskar fiskveiðar,“ segir formaðurinn, Svend-Erik Andersen, og bætir því við að vottunin muni bæði auka trúverðugleika veiðanna og sjálfstraustið innan greinarinnar. 

Hann minnir á að danskir fiskimenn hafi árum saman mátt sitja undir ásökunum um ofveiði og vera að veiða síðasta þorskinn. Þorskstofninn í Norðursjó og Skagerak hafi nú braggast og sé í svipuðu ástandi og hann var á níunda áratug síðustu aldar. Viðurkennt sé að veiðarnar séu sjálfbærar og það sé mikið fagnaðarefni.