fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðja hvert útkall á sjó

13. janúar 2019 kl. 09:00

Úrstjórnklefa þyrlu Landhelgisgæslunnar

Enn eitt metárið í fjölda útkalla hjá Landhelgisgæslunni.

Alls sinntu loftför Landhelgisgæslunnar 278 útköllum árið 2018 og hafa þau aldrei verið fleiri. Það er um 8% aukning frá árinu 2017 en þá fóru þyrlur og flugvél stofnunarinnar í 257 útköll.

Strax í nóvember hafði met fyrra árs fallið en á síðasta ári voru 180 sjúkir eða slasaðir fluttir með loftförunum. Helmingur þeirra voru erlendir ríkisborgarar. 

Útköllin hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og eru tæplega 74% fleiri en árið 2011 þegar þau voru 160. Metfjöldi útkalla ársins 2018 kemur Landhelgisgæslunni ekki á óvart ef tekið er mið af þróun síðastliðinna ára, segir í frétt frá stofnuninni.

 Alls fóru loftförin TF-LIF, TF-GNA, TF-SYN og TF-SIF í 731 flugferð á árinu 2018 en flugferðirnar voru 628 árið 2017.

Útköll á sjó voru 83 af útköllunum 278, kemur fram í sundurgreiningu þessara talna frá Landhelgisgæslunni. Þau voru því í kringum 30% allra útkalla. Þar af voru 36 leitar og björgunarflug á sjó, átján voru sjúkraflug á sjó og 29 voru sérstök löggæsluflug á sjó, flug fyrir lögreglu og fleira.