mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðji „Þorskurinn“ afhentur

4. apríl 2014 kl. 13:18

Gadus Neptun, síðasti togarinn í seríunni.

Þrjú nýsmíðuð systurskip Havfisk AS komin í rekstur.

Nýlega var þriðji og síðasti togarinn sem ber nafnið Gadus (þorskur) afhentur nýsmíðaður norsku stórútgerðinni Havfisk AS. Þetta skip heitir Gadus Neptun en áður höfðu skipin Gadus Poseidon og Gadus Nord verið afhent. 

Öll skipin þrjú voru smíðuð á aðeins níu mánuðum hjá norsku stöðinni Vard Brattvaag í nánu samstarfi við systurstöð hennar Vard Braila í Rúmeníu. 

Togararnir eru aðallega gerðir til veiða á þorski, ýsu og ufsa með möguleika á því að skipta yfir á rækjuveiðar ef svo ber undir. Frystigetan er 80 tonn á sólarhring og lestarrými 1200 rúmmetrar. Þá er fiskimjölsverksmiðja um borð. 

Skipin eru 69,8 metra löng og 15,6 metra breið. Hægt er að knýja þau áfram samtímis með díselolíu og rafmagni. Eins og gefur að skilja er allur tækjabúnaður í skipunum hinn fullkomnasti og aðbúnaður áhafnar eins og best verður kosið. 

Velta Havfisk AS nam sem svarar um 15 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Fyrirtækið, sem er útgerðarhluti Norway Seafoods, gerir nú út 12 togara sem sjá má HÉR.