þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðjungur byggðakvóta síðasta kvótaárs enn óveiddur

4. febrúar 2011 kl. 14:54

Þorskur

Formaður Landssambands smábátaeigenda segir brýnt að breyta reglum um byggðakvóta

Tæplega 3000 þorskígildistonnum var úthlutað af byggðakvóta á síðasta fiskveiðiári. Við lok tímabilsins átti eftir að veiða um þriðjung þess afla, eða þúsund tonn, sem er óvenju mikið miðað við síðustu ár. Að sögn Arthurs Bogasonar, formanns Landssambands smábátaeigenda var kvótanum úthlutað of seint. Svo langt hafi það á stundum gengið að kvótanum hafi verið úthlutað í lok fiskveiðiársins, jafnvel eftir að því hafi verið lokið.

Ástæðan er sú, segir Arthur í samtali við ríkisútvarpið, að reglurnar gera ráð fyrir að hægt sé að kæra úthlutanir og fyrir vikið dragist úr hömlu að úthluta kvótanum. Þetta sé vel hægt að laga. Landssamband smábátaeigenda hafi lagt fram tillögur að slíkum breytingum. Hann segir að kalla mætti þá hugmynd byggðaívilnun, þar sem menn fengju ívilnun fyrir að landa í viðkomandi byggðalögum, í staðinn fyrir „að vera í eilífum umsóknarferlum og þurfa að sanna einhverja sérstaka fortíð.“