mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrjú af hverjum fimm störfum horfin

16. apríl 2014 kl. 12:25

Hjálmar Kristjánsson framkvæmdastjóri KG fiskverkunar á Rifi. (Mynd: VH)

Á sjávarútvegur að vera samkeppnisrekstur eða atvinnuskapandi út frá byggðasjónarmiðum?

„Aðkallandi mál sem við verðum að taka fyrir er hvort við eigum að reka sjávarútveginn eins og hvern annan rekstur í samkeppni eða hvort hann á að vera atvinnuskapandi út frá byggðasjónarmiði. Þarna er stórmunur á í mínum huga,“ segir Hjálmar Kristjánsson framkvæmdastjóri KG fiskverkunar á Rifi í ítarlegu viðtali í páskablaði Fiskifrétta.

„ Í dag erum við að keyra ýmsa þætti í sjávarútvegi sem eru óarðbærir. Dæmi um það er línuívilnun vegna handbeitningar í landi. Þetta eru gersamlega úrelt vinnubrögð og algerlega út í hött.

Ég reiknaði út fyrir nokkrum árum að með hagræðingunni, tækninýjungunum og niðurskurði á veiðiheimildum sem hafa fylgt í kjölfar kvótasetningarinnar hafi tvö af hverjum fimm störfum í sjávarútvegi horfið. Í dag tel ég nær að það séu þrjú af hverjum fimm störfum. Þetta þýðir í raun að þrjú af hverjum fimm byggðalögum sem lifað hafa á fiskvinnslu eiga ekki séns og því ekki grundvöllur til að halda úti byggðastefnu með hjálp sjávarútvegs,“ segir Hjálmar og bætir við: „Margir tala um að samþjöppun og hagræðing sé hinu illa en vilja um leið leggja á aukin gjöld og fá meiri tekjur frá sjávarútveginum.“

Sjá ítarlegt viðtal við Hjálmar í páskablaði Fiskifrétta um starfsemi KG fiskverkunar á Rifi og álitamálin í sjávarútveginum.