mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrjú skip halda til loðnuleitar

9. janúar 2020 kl. 15:46

Hákon EA 148 og Bjarni Ólafsson AK 70 koma til liðs við rannsóknarskipið Árna Friðriksson í loðnuleit sem hefst í byrjun næstu viku. Bjarni Sæmundsson er á leið í slipp.

Hafrannsóknastofnun greinir frá því að loðnuleit hefjist í byrjun þriðju viku janúar. Ásamt rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni taka uppsjávarskipin Hákon EA 148 og Bjarni Ólafsson AK 70 þátt í fyrsta hluta verkefnisins, en önnur skip verða til taks síðar.

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er á leið í slipp með bilaða vél og „er að auki óhentugur í loðnuleit vegna smæðar sinnar og þess utan er hann ekki með fellikjöl þannig að hann er fljótt sleginn út í bergmálsmælingum ef eitthvað er að veðri og sjólagi", að því er segir í tilkynningu frá Hafró.

„Ætlunin er að ná mælingu í janúar og aftur í fyrri hluta febrúar og verða niðurstöður þeirra notaðar til grundvallar fyrir fiskveiðiráðgjöf vetrarvertíðarinnar," segir ennfremur. Eins og gefur að skilja stjórnast gangur mælinga af veðrum og vindum á þessum árstíma sem og dreifingu loðnu. Því er ómögulegt að segja til um hvenær fyrstu niðurstöður munu liggja fyrir.“

Þar segir einnig að óvissa hafi verið undanfarna daga með þátttöku veiðiskipa í leitinni Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafi óskað eftir því að greiðsla komi á móti útlögðum kostnaði.

„Þann 8. janúar sl. náðist samkomulagi við SFS um að koma að leitinni á þeim forsendum að félagið legði til skip í samtals 30 daga, tvö skip í senn með það fyrir augum að ná tveimur góðum mælingum. Hafrannsóknastofnun stýrir leitinni og mælingum. Kostnaður útgerðanna sem af þessu hlýst er um 60 milljónir og leggur Hafrannsóknastofnun fram 30 milljónir. Ráðherra og ráðuneyti styðja þetta samkomulag.“