þriðjudagur, 20. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þróa tilraunaveiðar fram eftir vetri

Guðjón Guðmundsson
2. október 2020 kl. 16:00

Gildruveiðin er tilraun en um langt árabil hafa sjómenn velt þessum veiðiskap fyrir sér. Mynd/Alfons

Fengu humar í flestar gildrur í öðrum túr.

Tilraunaveiðar á humri í gildrur standa nú yfir. Það er báturinn Inga P SH og áhöfn hans sem veiðarnar stunda í samstarfi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Farnir hafa verið tveir túrar og var eftirtekjan í seinni túrnum um 30 kíló upp úr sjó.

Klemens Sigurðsson skipstjóri segir menn vera að þreifa fyrir sér með þessar veiðar. Þær séu hugsaðar til þess að menn afli sér vitneskju um þessi botnlægu dýr sem svo lítið virðist vera af um þessar mundir.

Klemens var í landi á Rifi þegar haft var samband við hann að sinna viðhaldi á bátnum. Til stóð að leggja gildrur seinna í vikunni þegar veður leyfði.

„Það er lagt upp með það að gera tilraun til humarveiða í gildrur. Við erum nýbyrjaðir á þessum veiðum og það er Vinnslustöðin sem stendur að þessu. Ég hafði samband við Hafró áður en við byrjuðum en undirtektirnar voru ekki miklar. Ég held að það sé langt síðan humar var veiddur í gildrur. Gæti trúað því að síðustu atvinnuveiðar í gildrur hafi verið upp úr 1990 ef ég man rétt,“ segir Klemens.

Þrír eru með honum á Ingu P og lagt er upp frá Rifi. Auk skipstjórans eru á bátnum bróðir hans Hjörtur og Alfons Finnsson. Klemens hefur víða komið við í sjómennsku í gegnum tíðina. Verið á flest öllu fyrir utan uppsjávarveiðar. Inga P er um 10 metra langur línu- og handfærabátur í eigu Kviku ehf. útgerðarinnar á Arnarstapa.

Stefnt að því að fjölga gildrum

Klemens segir að til standi að þróa þessar tilraunaveiðar eitthvað fram eftir vetri og sjá svo í framhaldinu hvaða tölfræði veiðarnar skili.

„Menn eru að leita allra leiða til þess að finna veiðanleg svæði og búa til verðmæti úr því sem er til staðar. Humarkvótinn er ekki að vera stór heldur og þetta er það sem rekur menn áfram. Við erum búnir að fara tvo túra. Í fyrsta túrnum fórum við bara eitthvað út í buskann og lögðum. Við erum að reyna að finna réttan streng og það eru lausir endar í þessu. En þetta kemur. Við viljum vera á linum botni og hérna út af Snæfellsnesi eru leirbotnar.“

Hann sagði að þetta hefði litið alveg ásættanlega út eftir annan túrinn. Það var humar í þeim gildrum sem þeir höfðu búist við að fá humar í. Gildrurnar voru 70 talsins en stefnt er að því að fjölga þeim til að ná meiri yfirferð yfir svæðið. Gildrurnar eru fastar í bauju og látnar liggja í tvo til fjóra sólarhringa. Gildrurnar hafa verið á um það bil 100 föðmum.

„Það eru takmarkaðar upplýsingar til um þessar veiðar og við rennum dálítið blint í sjóinn. En þetta hefur verið framar vonum. Þetta var eitthvað í kringum 30 kíló í öðrum túrnum en það fæst algjört „eiturlyfjaverð“ fyrir humarinn. Við sáum ekki mikið af smáum humri hvað sem veldur því. Kannski hefur smærri humar það ekki af að koma sér inn í gildruna þar sem opið er fyrir henni miðri. Við höfum verið með síld frá Færeyjum sem beitu. En það er bara gaman að þessu. Það er alltaf spennandi að vera í einhverri tilraunastarfsemi,“ segir Klemens.