föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þurfum sérsveit markaðsmanna

9. nóvember 2012 kl. 14:42

Össur Skarphéðinsson

sem hefði yfir um 500-600 milljónum að ráða í markaðssetningu íslenskra sjávarafurða, segir utanríkisráðherra

 

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að Íslendingar þurfi sérsveit markaðsmanna og 500-600 milljónir til ráðstöfunar til að mæta Norðmönnum í markaðsetningu sjávarafurða. Össur lét þessi orð falla í setningarræðu á sjávarútvegsráðstefnunni.

Össur sagði að nausynlegt væri að stjórnvöld og greinin tækju upp samstarf um að auka sameiginlega markaðssetningu á Íslandi á mörkuðum erlendis. „Oft var þörf en nú er nauðsyn. Við horfum fram á gríðarlega þorskgengd í Barentshafi sem hefur leitt til þess að kvóti Rússa og Norðmanna á þorski var fyrir þetta ár aukinn um meira en nemur öllum þorskafli á Íslandi. Þetta þýðir það eitt, að við getum gert ráð fyrir miklu harðari samkeppni á mörkuðum en við höfum átt í áður,“ sagði Össur.

„Í þessu efni hafa Norðmenn verið okkur miklu fremri. Ég þekki vel úr starfi mínu sem utanríkisráðherra hvernig þeir fara að. Þeir Norðmenn hafa sérstakt öflugt opinbert hlutafélag, fjármagnað með gjaldi á útveginn, sem á þessu ári ver 9 milljörðum íslenskra króna til áróðurs fyrir norskan sjávarútveg. Ráðið skipuleggur milli 500-600 markaðsverkefni í samvinnu við norsk sjávarútvegsfyrirtæki á hverju ári. Hjá því starfa 100 starfsmenn í 12 löndum að sameiginlegri markaðssetningu, markaðsupplýsingum, markaðssamskiptum, ímyndarvörnum og almannatengslum.

Með höfðatöluaðferðinni má finna út að til að komast í samjöfnuð við Norðmenn ættum við að vera með að minnsta kosti 7 manna sérsveit í 30-40 markaðsverkefnum tengdum sjávarútvegi á ári og verja til þess milli 500 til 600 milljónum króna. Af hálfu okkar atvinnuvegaráðherra er fullur vilji til að taka höndum saman með greininni til að sveifla okkur saman í öflugt markaðsátak fyrir íslenskan sjávarútveg,“ sagði Össur Skarphéðinsson.