föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þúsund störf og 35 milljarðar í húfi

13. ágúst 2015 kl. 12:52

Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ.

Það sem við óttuðumst virðist orðið að veruleika, segir Kolbeinn Árnason.

1.000 störf og 30-35 milljarðar króna eru í húfi vegna viðskiptabanns sem Rússar settu í morgun. „Því miður virðist það hafa orðið að veruleika sem við óttuðumst. Þeir hagsmunir sem við óttuðumst að væri stefnt í voða eru komnir í þann voða, “ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS í samtali við RÚV.

Næstu skref

Kolbeinn segir að næstu skref verði þau að kanna hvort hægt sé að selja þessar afurðir á aðra markaði. „Menn hafa verið að reyna dreifa áhættunni og leita annarra markaða í nokkurn tíma - þeir markaðir eru því miður litlir og borga verr.“

Kolbeinn segir að einnig verði að athuga hvort hægt sé að vinna afurðina, sem farið hefur á Rússlandsmarkað, með öðrum hætti. „Er hægt að gera eitthvað í samskiptum við Rússland til að milda þessi áhrif?“ spyr Kolbeinn sem telur að menn hljóti að hugsa allar leiðir til að takmarka það tjón sem nú er yfirvofandi.

Kolbeinn segir einhverjir fundir hafi verið haldnir um leiðir til að markaðssetja þessar vörur á öðrum mörkuðum. „En það er ekkert sem menn bregðast við 1,2 og 3 - það er einfaldlega ekki hefð fyrir neyslu þessara vara á mörgum mörkuðum í heiminum.“ 

20% tollur inn í ESB

Kolbeinn segir að sjávarútvegurinn hafi reynt að búa sig eins vel og hugsast getur undir rússneskt viðskiptabann. „Við höfum reynt að finna aðra markaði fyrir þessar vörur- eins og í Afríku og Asíu en þeir eru ekki jafn stórir. Það eru 20 prósent tollar á þessum vörum í ESB - sem við erum að elta inn í þessar refsiaðgerðir. Við höfum farið þess á leit við stjórnvöld að bregðast við aðstæðum með því að fara þess á leit við þessa miklu bandamenn að fella niður þessa tolla - það hefur ekki verið gert. Við höfum verið að leita allra leiða.“

Kolbeinn segir að þetta sé ekki aðeins spurning um markaði og afurðir heldur líka starfsfólk. Þeir telji að um þúsund manns hafi atvinnu af því að vinna að frystingu þessara afurða. „Við höfum varað við því að það að taka fleiri ákvarðrnir og halda áfram ógagnrýnum stuðningi við þessar aðgerðir geti leitt þetta af sér og nú er staðan orðin þessi.“