þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þúsund þorsktonn til frístundaveiða

17. febrúar 2016 kl. 14:54

Smábátaveiðar við Grænland.

Grænlenska landsstjórnin veitir veiðileyfin með ákveðnum skilyrðum.

Frístundaveiðimenn, sem svo eru nefndir, mega veiða samtals 1.000 tonn af þorski við Grænland á þessu ári. Að auki er þeim heimilt að veiða 100 tonn af grálúðu á hverju þriggja stjórnunarsvæða, sem eru Upernavik, Uummannaq og Diskóflóinn. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem svona veiðifyrirkomulag er tekið upp í Grænlandi. Kannski má líkja þessu kerfi við strandveiðikerfið íslenska, hvað tilganginn varðar, þótt það lúti allt öðrum reglum og lögmálum. 

Sækja þarf um leyfi til þessara veiða og þau eru veitt með ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi þarf umsækjandinn að hafa verið skráður til heimilis á Grænlandi síðustu tvö árin og hafa verið fullgildur skattþegn þar í landi þann tíma. Og í öðru lagi má hann ekki vera atvinnufiskimaður. 

Fiskinn sem veiddur er í þessu veiðikerfi má fénýta. Fiskvinnslustöðvum er þó heimilt að neita að taka við afla sem ekki stenst þær kröfur sem gerðar eru til atvinnufiskimanna. Þá má einnig hafna fiski úr frístundaveiðum ef takmarkanir eru í gildi á móttöku afla frá atvinnufiskimönnum. Um leið og útgefnum heildarafla er náð skal hætta að taka á móti frístundafiskinum. 

Því má bæta við að eftir sem áður er Grænlendingum heimilt að veiða fisk í soðið til heimilisbrúks án leyfa, rétt eins og tíðkast á Íslandi.