þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Til heimahafnar í blíðuveðri

4. júní 2021 kl. 10:25

Nýi Börkur sigldi inn fjörðinn í fylgd Beitis NK. Mynd/Kristín Svanhvít Hávarðsdóttir

Það ríkti hátíðarstemning í Neskaupstað í gær þegar nýtt skip Síldarvinnslunnar - Börkur NK 122 - kom til heimahafnar í fyrsta sinn.

Það var blíðuveður þegar nýtt glæsilegt uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Börkur NK 122, sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð um hádegisbilið í gær. Nýi Börkur sigldi inn fjörðinn í fylgd Beitis NK.

Það ríkti því hátíðarstemning í Neskaupstað, segir í stuttri frétt Síldarvinnslunnar og það voru margir til að dást að hinu glæsilega skipi.

„Skipin tvö sigldu fram og aftur um fjörðinn fánum prýdd og þeyttu skipsflauturnar ákaft. Það eru ávallt tímamót þegar tekið er á móti nýju skipi, en síðasta nýsmiði sem Síldarvinnslan festi kaup á var rækjufrystitogarinn Blængur sem kom í fyrsta sinn til hafnar í Neskaupstað árið 1993,“ segir í fréttinni.

Skipið er smíðað hjá skipasmíðastöðinni Karstensens Skibsværft AS þar í landi. Börkur er systurskip Vilhelms Þorsteinssonar EA sem kom til landsins í aprílbyrjun.

Nýr Börkur er smíðaður með flotvörpu- og hringnótaveiðar í huga þannig að hann er dæmigert uppsjávarveiðiskip. Hann mun leysa af hólmi skip sem ber sama nafn sem smíðað var í Tyrklandi árið 2012.

Nýi Börkur er 89 metrar að lengd, 16,6 metrar að breidd og mælt rúmlega 4.100 brúttótonn. Aðalvélar í skipinu eru tvær og kælitankar 13 talsins, alls 3.420 rúmmetrar. Í skipinu verða vistarverur fyrir 16 manns. Skipið kostar 5,7 milljarða króna heim komið.

Skip­stjór­ar á Berki verða þeir Hjörv­ar Hjálm­ars­son og Hálf­dán Hálf­dán­ar­son.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar skipstjóra á heimsiglingunni þegar dólað var áleiðis til landsins á annarri aðalvélinni.

„Okkur liggur ekkert á enda eru menn að taka út sóttkví á heimleiðinni. Þetta er bara skemmtisigling. Um borð er megnið af áhöfninni og nokkrir að auki og menn eru yfir sig hrifnir af skipinu. Það er einstaklega hljóðlátt og fer vel með menn. Ég held að þetta skip sé afar vel lukkað og um borð í því er allur besti búnaður sem fáanlegur er,“ sagði Hjörvar. „Það verður virkilega þægilegt að vinna um borð í þessu skipi og menn eru bara alsælir,“ bætti hann við.

Börkur verður nefndur við hátíðlega athöfn á sjómannadaginn komandi. Gefst þá tækifæri fyrir heimamenn og aðra áhugasama að skoða skipið.

Fiskifréttir fjalla ítarlega um Börk NK og komu skipsins til heimahafnar í næsta blaði sem kemur út fimmtudaginn eftir sjómannadag.