sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Til veiða á ný í ágúst

2. júlí 2018 kl. 06:00

Halldór Gestsson skipstjóri á Sighvati GK í nýju brúnni. MYND/GUÐMUNDUR ST. VALDIMARSSON

Nýr Sighvatur GK kominn til heimahafnar


Nýr Sighvatur GK 57 sigldi inn til Grindavíkurhafnar síðastliðinn eftir gagngera endurbyggingu sem staðið hefur yfir síðastliðið ár í Gdansk í Póllandi. Halldór Gestsson skipstjóri segir að í raun sé um nýtt skip að ræða og munurinn á allri aðstöðu, tækjabúnaði og vél sé mikill. Hann sagði siglinguna frá Póllandi hafa tekið tæpa viku og lét skipið sérlega vel í hafi.

gugu@fiskifrettir.is

„Við lögðum af stað klukkan tvö á laugardag frá Gdansk og vorum komnir til Grindavíkur klukkan átta á föstudagskvöld. Það var ágætis veður á leiðinni en fengum samt smá kaldaskít á kafla en annars var þetta bara gott. Ég var þarna úti síðustu vikuna í Gdansk áður en við sigldum heim,“ segir Halldór Gestsson skipstjóri á Sighvati GK.

Hann hefur stýrt skipinu síðan 2013 og sér því glöggt þær breytingar sem hafa orðið á því. Hann segir mikinn mun milli þessara skipa.

Ný vinnslulína

„Stærsti munurinn er náttúrulega sá að nýja skipið tekur 400 kör í lest meðan sá gamli tók ekki nema 255 kör. Svo er allur aðbúnaður bara miklu betri fyrir áhöfn. Vistarverur eru eins og best verður á kosið. Það á eftir að setja niður á millidekkið og verður gert næstu vikurnar á Ísafirði. Það verður sett upp ný vinnslulína og það er í samvinnu við Marel, m.a. nýtt flokkunarkerfi. Fiskurinn verður þannig flokkaður uppi á dekki áður en hann fer niður í lest,“ segir Halldór.

Hann segir að með meira plássi fyrir kör verði hægt að fækka löndunardögum. Nú sé stefnt að því að landa einu sinni í viku eins og stærri bátar Vísis hafa gert. Minni regla var áður á löndunum og bara farið í land þegar nóg hafði fiskast. Nú verði fastur löndunardagur og meiri rútína því framundan.

Halldór segir að skipið hafi verið endursmíðað og nánast allt sé nýtt í honum. Skipt var um vélar og allt er nýtt í rafmagni. Brúin er útbúin nýjustu tækjum og öll aðstaða til fyrirmyndar. Mannskapurinn sé tilbúinn að takast á við nýtt skip sem lætur mjög vel í sjóinn.

Meiri stöðugleiki í mannahaldi

Halldór segir að stefnt sé að því að halda til veiða strax eftir verslunarmannahelgi. Sama áhöfn er á skipinu og áður en hann segir að töluvert los hafi komist á mannskap heilt yfir flotann í sjómannaverkfallinu. Nú sé að nást meiri stöðugleiki í þessi mál.

Sighvatur GK hefur oftast verið að veiðum fyrir norðan land á haustin og gjarnan þá landað á Sauðárkróki og þar áður á Skagaströnd. Bátarnir hafa líka talsvert verið fyrir austan og þá landað á Djúpavogi.

Halldór segir að þeir hafi mikið verið við veiðar út af Strandagrunni á haustin og stímið til löndunar á Sauðárkróki ekki svo langt. Aflanum er svo ekið til Grindavíkur til ferskfisk- og saltfiskvinnslu Vísis.

„Það er mjög lélegt verð á fiskmörkuðunum og það hefur eiginlega verið að drepa þetta allt niður. 220 kr. fyrir óslægðan þorsk þykir mér lélegt verð. Við erum blessunarlega lausir við ufsann á línunni,“ segir Halldór en verð á óslægðum ufsa er nú um mundir um 54 krónur á kílóið.