miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilbúnir réttir helmingur sölu í fiskbúðinni

28. janúar 2011 kl. 12:00

Fiskborð hjá Hafbergi.

Ýsan er enn sem fyrr langvinsælasti fiskurinn

Fiskneysla fólks hefur breyst verulega undanfarna áratugi. Tilbúnir réttir eru nú um helmingur sölunnar hjá fiskversluninni Hafberg, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Geir Már Vilhjálmsson hjá Hafbergi segir að í fyrstu hafi það eingöngu verið yngra fólk sem keypti tilbúnu réttina en eldra fólkið fúlsaði við þeim. Hins vegar sjáist lítill munur á vali fólks eftir aldri nú til dags að þessu leyti. Þá er boðið upp á meiri fjölbreytni í fiskborðinu en áður en ýsan er enn sem fyrr langvinsælasti fiskurinn.

Mánudagar eru stærstu fisksöludagarnir en það hefur færst í vöxt að fólk kaupir fisk í helgarmatinn sem var nær óþekkt hér áður fyrr. ,,Við rekum stærstu fiskbúðina í Reykjavík og á mánudögum, mesta fisksöludegi vikunnar, fáum við til okkar um 500 kúnna. Ég gæti trúað því að í heildina séu um 2.000 einstaklingar að versla fisk fyrir 6.000 til 8.000 manns á Reykjavíkursvæðinu á mánudögum,“ segir Geir Már Vilhjálmsson.