

Fiskneysla fólks hefur breyst verulega undanfarna áratugi. Tilbúnir réttir eru nú um helmingur sölunnar hjá fiskversluninni Hafberg, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Geir Már Vilhjálmsson hjá Hafbergi segir að í fyrstu hafi það eingöngu verið yngra fólk sem keypti tilbúnu réttina en eldra fólkið fúlsaði við þeim. Hins vegar sjáist lítill munur á vali fólks eftir aldri nú til dags að þessu leyti. Þá er boðið upp á meiri fjölbreytni í fiskborðinu en áður en ýsan er enn sem fyrr langvinsælasti fiskurinn.
Mánudagar eru stærstu fisksöludagarnir en það hefur færst í vöxt að fólk kaupir fisk í helgarmatinn sem var nær óþekkt hér áður fyrr. ,,Við rekum stærstu fiskbúðina í Reykjavík og á mánudögum, mesta fisksöludegi vikunnar, fáum við til okkar um 500 kúnna. Ég gæti trúað því að í heildina séu um 2.000 einstaklingar að versla fisk fyrir 6.000 til 8.000 manns á Reykjavíkursvæðinu á mánudögum,“ segir Geir Már Vilhjálmsson.