laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilfærsla fiskistofna til marks um breytingar

7. ágúst 2019 kl. 15:00

Tilkoma makríls á Íslandsmiðum og veiðar á þessari verðmætu tegund eru kannski skýrasta birtingarmynd breytinganna í hafinu. Mynd/HB Grandi

Miklar breytingar á hafinu við Ísland á undanförnum árum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að miklar breytingar hafa orðið á Íslandsmiðum á undanförnum árum og oft er ártalið 1995 nefnt þegar afdráttarlaus hlýnun varð greinileg. Hafrannsóknastofnun gefur þessu gaum í nýútkominni skýrslu sinni um ástand nytjastofna sjávar og fiskveiðiráðgjöf 2019.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar segir að breytileg staðsetning skila á milli fremur fersks svalsjávar af heimskautauppruna og hlýrri og saltari Atlantssjávar valdi því að staðbundin skilyrði geta verið breytileg, einkum á norðurhluta landgrunnsins við Ísland. Síðustu tvo áratugi hefur Atlantssjór verið ráðandi gagnstætt því sem var í þrjá áratugi þar á undan.

Lífmassi sveiflast til

„Lífmassi dýrasvifs á landgrunninu hefur sveiflast umtalsvert síðustu áratugi, en án ákveðinnar leitni í tíma. Frá 2010 hefur lífmassi rauðátu að vori á landgrunninu norðan lands verið minni en meðaltal áranna 1960–2014. Á hafsvæðinu utan landgrunnsins suðvestan, sunnan og suðaustan við Ísland hefur magn ljósátu farið minnkandi síðustu 50 ár, sem hefur aðallega verið tengt við breytileika í frumframleiðni og tímasetningu þörungablóma á vorin,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að frá árinu 2006 hefur fæðuslóð makríls breiðst út frá Noregshafi á Íslandsmið, á sama tíma og sumarbeitarsvæði loðnu hefur færst í vestur frá Íslandshafi upp að landgrunnskantinum við Austur-Grænland.

Frá aldamótum hefur norsk-íslensk síld fundist í auknum mæli á hefðbundinni fæðuslóð austan og norðan Íslands.

„Þessar miklu breytingar í göngumynstri uppsjávarstofna hafa verið tengdar við breytilegt fæðuframboð, skilyrði í hafinu og ástand stofna.“

Hafið hitnar

Hækkandi hitastig í neðri lögum sjávar vestan- og norðanvert á íslenska landgrunninu hefur leitt til breytinga á útbreiðslu margra botnfisktegunda. Tegundir sem hafa verið við nyrðri mörk útbreiðslu sinnar á Íslandsmiðum og yfirleitt haldið sig í hlýja sjónum sunnan og vestan við landið, t.d. ýsa, skötuselur, langa, keila, sandkoli og langlúra, hafa stækkað útbreiðslusvæði sitt réttsælis í vestur og norður eftir landgrunninu og á Norðurmið, og í sumum tilfellum hefur útbreiðslusvæðið flust til.

Áður sjaldgæfir suðrænir flækingar hafa fundist í auknum mæli á svæðinu á undanförnum árum, en stofnstærð og útbreiðsla ýmissa kaldsjávartegunda hefur minnkað í kjölfar hlýnunar.

Rækjan hrunin

Stofnar rækju hrundu nálægt síðustu aldamótum og eru aukið afrán af völdum þorsks, hækkandi hitastig og veiðar taldir hafa verið helstu áhrifavaldar.Hrefnum á íslenska landgrunninu hefur fækkað á undanförnum árum. Breytingin hefur verið tengd breyttri útbreiðslu fremur en minnkandi stofnstærð. Stofnstærð annarra skíðishvala, sérstaklega langreyðar og hnúfubaks, hefur aukist undanfarin 20–30 ár.

Síðustu áratugi hefur varp margra sjófuglategunda sunnan og vestan lands skilað slökum árangri, og verpandi pörum hefur farið fækkandi. Þessi þróun gæti stafað af breytingum á þéttleika, samsetningu og útbreiðslu fiskbráðar, einkum sandsílis.