miðvikudagur, 22. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilkynna ekki um dauðan fisk á "þorskhótelunum"

16. nóvember 2016 kl. 11:06

Stór rannsókn í gangi á svindli í Noregi

Rannsókn er hafin á miklu magni af dauðum þorski í sjókvíum í Finnmörku nyrst í Noregi. Þar hefur færst í vöxt að halda fullvaxta þorsk í kvíum, „þorskahótelum“ eins og þær eru kallaðar, og slátra honum þegar það er hagfellt vegna eftirspurnar erlendis.

Jafnan verða afföll í kvíunum og er eigendum þeirra skylt að tilkynna um dauðan fisk til norsku Fiskistofunnar. Þegar engar tilkynningar höfðu borist um dauðan þorsk frá tilteknum fyrirtækjum í Finnmörku fór norska landhelgisgæslan á stúfana og kom í ljós að mikið magn af dauðum fisk var að finna hjá þremur fyrirtækjum, allt upp í sjö tonn á einum stað.

Stjórnvöld hafa hvatt til starfrækslu „þorskhótela“ og hafa í því skyni veitt sjómönnum ívilnun sem felst í því að 50% af þeim þorski sem skráður er inn á hótelið dregst ekki frá aflaheimild viðkomandi. Þorskurinn þarf að hafa verið eina viku á hótelinu áður en ívilnunin verður til. Þetta er talin vera skýringin á því að fyrirtækin hafa ekki tilkynnt um dauðan fisk.