þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilraunaveiðar við Jan Mayen á 400 tonnum af þorski

Guðjón Guðmundsson
1. september 2019 kl. 09:00

Norska línuskipið Geir II í öðrum túrnum.

Fiskeribladet norska greinir frá því að línubáturinn Geir II sé nú í sínum seinni túr til veiða á 400 tonna þorskkvóta sem norsk yfirvöld gáfu út til tilraunaveiða við Jan Mayen.  Eftir fyrri túrinn síðastliðið vor landaði Geir II í 150 tonnum af þorski sem hafði hrygnt og haldið sig við Jan Mayen.

Eins og Fiskifréttir sögðu fyrst frá í nóvember í fyrra þá mokveiddi norski línu- og netabáturinn Loran þorsk og grálúðu við Jan Mayen síðsumars 2018 – eða 450 tonn af þorski alls. Eftir þriðju löndun af miðunum voru send sýni af aflanum til norsku hafrannsóknastofnunarinnar til að fá úr því skorið úr hvaða þorskstofni veiðin væri, enda góð þorskveiði á þessum miðum lítt þekkt. Samtök útgerðarmanna í Noregi, Fiskebåt, sögðu reyndar að þetta væri í fyrsta sinn á seinni tímum sem svo mikið veiðist af þorski, og grálúðu, á þessu hafsvæði. Því var það talið mikilvægt að vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, skæri úr um hvort þorskurinn væri úr íslenska þorskstofninum eða Barentshafsþorskstofninum.

Þriðjungur úr íslenska þorskstofninum

Fiskifréttir sögðu svo í maí síðastliðnum frá niðurstöðum þessara rannsókna. Bæði erfðaefnisrannsóknir og rannsóknir á kvörnum úr þorskinum sem veiddist við Jan Mayen sýndu að þetta voru þorskar bæði úr íslenska þorskstofninum og Barentshafsþorskur. Hluti Barentshafsþorsksins var þó stærri.

Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, staðfesti í skriflegu svari til Fiskifrétta að erfðafræðirannsókn stofnunarinnar hefði náð til 86 fiska og af þeim reyndust 29 íslenskir, 51 af stofni Barentshafsþorsks en sex til þess stofns sem á rætur að rekja til strandsvæða Noregs. Rannsóknir á kvörnum gáfu ekki viðbótarupplýsingar hvað íslenskan þorsk varðar þar sem norsku vísindamennirnir höfðu ekki kvarnir úr íslenskum þorski til samanburðar.

5.000 krókar

Tilraunaveiðarnar hófust á þessu ári  með leyfum tveggja línuskipa – Geir II og Nesbakk. Skipin tvö fá leyfi til þess að fara í tvo túra við Jan Mayen hvort. Þeim verður dreift yfir árið svo sjá megi þróun veiðanna eftir árstíma.

Línan hefur verið lögð með 5.000 krókum á níu föstum punktum á hafsvæðinu. Afli Geirs II er nú kominn í 117 tonn. Harald Næss vísindamaður hjá norsku hafrannsóknastofnuninni skrifar um niðurstöður rannsóknanna á vefsíðu stofnunarinnar, sem leiða meðal annars í ljós að þorskurinn hrygnir og heldur sig við Jan Mayen yfir sumarið.  Í fyrri túr Geirs II síðastliðið vor veiddist nýgotinn þorskur. Rannsóknir á magainnihaldi sýndu að nóg æti var á svæðinu, einkum krabbadýr, smokkfiskur og rækjur. Geir II kemur úr seinni túrnum um mánaðamótin ágúst-september og hefst þá greining á ný á erfðaefni og kvörnum þorsksins.