mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tíu bestu árin ráði úthlutun

Guðsteinn Bjarnason
13. mars 2019 kl. 11:13

Makrílveiðar um borð í íslensku fiskiskipi. MYND/Grétar Ómarsson

Nýtt frumvarp komið fram til að bregðast við makríldómum Hæstaréttar. Fleiri útgerðir undirbúa málsókn.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra hefur brugðist við makríldómum Hæstaréttar Íslands og lagt fram frumvarp til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda.

Samkvæmt frumvarpinu á að úthluta aflaheimildum fyrir makrílveiðar næstu vertíðar „á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008–2018, að báðum árum meðtöldum.“

Með tveimur dómum frá í desember 2018 viðurkenndi dómstóllinn skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja. hf og Hugins ehf.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tvö önnur útgerðarfélög höfðað mál í héraði til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð ríkisins. Nú standi yfir viðræður um gerð dómsáttar í máli þeirra beggja. Enn fleiri útgerðarfélög séu að undirbúa málssókn.

Með því að miða við tíu bestu aflareynsluárum allra fiskiskipa á tímabilinu 2008 til 2018, að báðum árum meðtöldum, er talið „líklegt að útgerðir sem höfðað hafa mál á hendur íslenska ríkinu, að öðru skilyrðum fullnægðum, muni hvorki ná fram fullri úthlutun miðað við veiðireynslu áranna fyrir 2011, sem vonir þeirra kunna að standa til, né heldur að staða þeirra verði óbreytt,“ að því er segir í greinargerð.

Hlutfall þessara útgerða muni aukast „sem nemur hlutfalli aflamagns áranna 2008-2010 í aflamagni viðmiðunartímans,“ en aftur á móti muni „eigendur skipa sem hlotið hafa úthlutun í skjóli reglugerða sjávarútvegsráðherra, sem reynst hafa án lagastoðar, verða fyrir skerðingu, sem getur reynst umtalsverð í einhverjum tilvikum.“

Frumvarpið tekur ekki á skaðabótakröfum vegna fyrri ára en nú sé tímabært að setja lög um aflamarksstjórn við veiðar á makríl, enda hafi það verið skylt um árabil enda þótt látið hafi verið duga að setja reglugerðir til eins árs í senn um veiðar úr stofninum.