föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tíu stærstu í krókaaflamarki ráða yfir 36% aflaheimilda

14. mars 2012 kl. 12:20

Smábátar í höfn á Arnarstapa. (Mynd: Alfons Finnsson.

Tveir aðilar yfir mörkum í heildarkrókaaflahlutdeild

Tíu stærstu útgerðir í krókaaflamarkinu ráða yfir um 36% af aflaheimildum í kerfinu. Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Fiskistofu.

Í efsta sæti er Stakkavík ehf. með 2.469 þorskígildistonn eða 7,27% af heild, í öðru sæti er Einhamar Seafood ehf. með 1.735 þorskígildistonn eða 5,11% af heild og í þriðja sæti er Jakob og Valgeir ehf. með 1.490 þorskígildistonn eða 4,39% af heild.

Heildarkrókaaflahlutdeild einstakra eða tengdra aðila má ekki fara yfir 5% af samanlögðu heildarverðmæti krókaaflahlutdeilda. Þá má krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 4% í þorski og 5% í ýsu.

Tveir aðilar eru yfir mörkum í heildarkrókaaflahlutdeild, tveir eru yfir mörkum í krókaaflahlutdeild í þorski og einn í ýsu. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 var þeim sem voru yfir þessum hámörkum fyrir setningu laganna gefinn frestur til að gera ráðstafanir til lagfæra það. Með síðari lagabreytingum stendur fresturinn til 1. september 2012 og fellur einn fyrrnefndra aðila undir þann frest. Fiskistofa fylgir þessu máli eftir við alla þá sem í hlut eiga.