

Samkvæmt nýbirtum lista Fiskistofu ráða tíu stærstu sjávarútvegsfyrirtækin yfir um það bil helmingi aflaheimildanna nú við upphaf nýs fiskveiðiárs og 50 stærstu fá úthlutað sem nemur um 84% heildarkvótans.
Alls fá 502 fyrirtæki eða lögaðilar úthlutað veiðiheimildum að þessu sinni. Eins og áður er HB Grandi kvótahæsta útgerðin með 10,4% af heildinni. Næst kemur Samherji með 6,22% og ef kvóta Útgerðarfélags Akureyringa, sem er í eigu Samherja, er bætt við hafa þessir aðilar yfir 9,14% heildaraflaheimildanna að ráða.
Þorbjörn hf. í Grindavík kemur svo næstur með 5,58%. Helsta breytingin frá því í fyrra er sú að Brim hf., sem fékk næstmestu úthlutað þá, er nú í sjöunda sæti með 3,88% af heildinni samanborið við 6,87% í fyrra. Þetta stafar að sjálfsögðu af því að Brim seldi Samherja starfsemi sína á Akureyri sem nú er undir merkjum Útgerðarfélags Akureyringa.