laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tjónuðu trollin en fengu bjöllu

Guðsteinn Bjarnason
19. september 2020 kl. 07:00

Klakkur ÍS fékk óvæntan afla í rækjutrollið. MYND/Þorgeir Baldursson

Guðbjartur Jónsson skipstjóri á Klakki segir enga ákvörðun enn hafa verið tekna um afdrif skipsbjöllunnar úr Erni GK sem fannst á utanverðum Skjálfanda.

„Við festum í flaki. Við tjónuðum bæði trollin en fengum upp þessa bjöllu,“ segir Guðbjartur Jónsson skipstjóri á Klakki, sem fékk gamla skipsbjöllu í trollið á utanverðum Skjálfanda í síðustu viku.

Bjallan reyndist vera úr hafnfirska togaranum Erni GK 5 sem fórst á þeim slóðum árið 1936. Enginn veitt enn í dag hvers vegna skipið sökk. Veður var gott og enginn sá hvað gerðist. Það er ekki fyrr en nú sem nákvæm staðsetnings flaksins er fundin.

Guðbjartur segir óneitanlega merkilegt að skipsbjallan tengist útgerð Klakks því langafi Gunnars Torfasonar útgerðarmanns, Jóhann Rósinkrans Símonarson, var á Erni GK þegar hann fórst.

„Torfi orðaði það nú sem svo að það væri allt í lagi að við hefðum skemmt trollið fyrst við fengum upp bjölluna,“ segir Guðbjartur, og á þar við Torfa Björnsson, sem er aldraður faðir Gunnars útgerðarmanns og sonarsonur Jóhanns, háseta á skipinu sem fórst.

Vel gengið á rækjunni

Klakkur er mest á rækjuveiðum, en er einnig notaður til að veiða byggðakvóta sem úthlutað var til Flateyrar í kjölfar hamfaranna þar síðasta vetur. Gríðarmikið snjóflóð gjöreyðilagði þá megnið af bátaflota bæjarins.

„Við höfum verið á þessu skipi á rækjuveiðum frá því i mars og dálítið fram í október, en svo gerir Gunnar út annan innfjarðarrækjubát, Halldór Sigurðsson, sem er í Djúpinu. Þannig að ég fer yfir á hann vanalega svona í nóvember.“

Guðbjartur segir vel hafa gengið á rækjunni í sumar.

„Þetta hefur verið fínt núna í júlí og ágúst og það sem af er september, en eins og gerist á haustin þá fer tíðin að verða rysjóttari.“

Aflinn hefur yfirleitt verið um það bil 25 til 30 tonn af rækju, að sögn Guðbjarts. Í júlí og ágúst hefur hann einnig verið að taka fisk, og þá hafa það verið svona tíu til 30 tonn af fiski með rækjunni.

Myndi sóma sér vel á svölunum

Guðbjartur segir engar ákvarðanir enn hafa verið teknar um það hvar skipsbjöllunni verði komið fyrir.

„Mér þykir nú svo sem ekki ólíklegt að Torfi gamli fái hana bara á svalirnar hjá sér. Mér finnst hún eiga svolítið heima þar. En svo veit maður ekki, það eru fleiri fjölskyldur sem tengjast þessu. Það voru 19 manns á þessu skipi.“

Hann veltir því fyrir sér hvort fólk muni vilja setja upp minningarreit eða minnismerki, og þá mögulega í Hafnarifirði því þaðan var Örn GK gerður út.

„Ég er alla vega opinn fyrir því að hún fái að tengjast sem best þessu fólki sem hefur taugar til þess sem gerðist þarna.“