sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Togararall: Stofnstærð þorsks nálægt fyrra mati

16. apríl 2010 kl. 10:49

Bráðabirgðastofnmat þorsks bendir til þess að stofnstærð þorsks í ársbyrjun 2010 sé nálægt fyrra mati, segir í frétt frá Hafrannsóknastofnun um niðurstöður togararallsins í ár.

Útbreiðsla þorsks var jafnari en verið hefur undanfarin ár. Mest fékkst af þorski djúpt út af Norðurlandi, en einnig fékkst talsvert í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land, í kantinum út af Vestfjörðum og á grunnslóð vestan lands.

Stofnvísitala og stærðardreifing þorsks var svipuð og búist var við, nema að árgangurinn frá 2008 mældist minni en stofnmælingin í fyrra gaf til kynna. Tiltölulega mikið er nú af stórum þorski í stofninum en lítið af millifisski eins og búast má við þegar nýliðun hefur verið léleg flest árin frá aldamótum en sókn lítil miðað við meðaltal áranna sem stofmælingin hefur farið fram.

Af árgangi 2009 mældist mun meira en í meðalári. Undanfarin ár hafa árgangar mælst stærri eins árs en síðari mælingar hafa leitt í ljós og er 2008 árgangur síðasta dæmið þar um. Í ljósi þess gæti 2009 árgangurinn orðið tæplega meðalárgangur.

Meðalþyngd eftir aldri mældist lág eins og undanfarin ár, en var þó heldur hærri en í mars 2009 hjá flestum aldurshópum. Við sunnanvert landið var holdafar þorsks (slægð þyngd miðað við lengd) og lifrarstuðull með því hæsta sem verið hefur frá 1993, þegar vigtanir hófust.

Sjá nánar frétt og skýringarmyndir á vef Hafró, HÉR