sunnudagur, 23. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Togararallið: Í góðu samræmi við fyrra mat Hafró

11. apríl 2008 kl. 12:12

,,Niðurstöður togararallsins hvað þorskinn varðar komu ekki á óvart. Aldursgreindar vísitölur benda til þess að stærð veiðistofnsins, það er að segja þyngd fjögurra ára fisks og eldri, sé í góðu samræmi við mat okkar á ástandi stofnsins fyrir einu ári. Þegar endanlegt stofnmat verður gert núna í vor verður auk togararallsins tekið tillit til veiðigagna, en niðurstöðurnar úr togararallinu gefa jafnan sterka vísbendingu um stofnmatið,”  sagði Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar.

,,Það eru hins vegar ekki góðar fréttir, að fyrsta mat á stærð 2007 árgangs þorsksins skuli benda til þess að hann sé slakur, af svipaðri stærð og árgangarnir 2005 og 2006 og árgangurinn frá 2004 mælist sem fyrr mjög lélegur. Þetta mun hafa áhrif á það hversu hratt stofninn byggist upp. Þá kemur fram að vísitala 8-11 ára fisks (árgangar 1997-2000) mælist nú nokkru hærri en í fyrra og nálægt tvisvar sinnum hærri en hún var að meðaltali árin 2001-2006. Það gæti verið vísbending um að við séum að ná því markmiði að styrkja hrygningarstofninn þótt of snemmt sé að skera úr um það fyrr en stofnmatið liggur endanlega fyrir í vor. Þetta er sá fiskur sem flotinn hefur orðið var við hér sunnan- og suðvestanlands á vertíðinni.

Markmið okkar með ráðgjöf um niðurskurð á þorskaflaheimildum í fyrra var annars vegar að draga úr líkum þess að stofninn minnkaði á næstu árum og hins vegar að styrkja hrygningarstofninn og auka þar með líkurnar á því að sterkari árgangar kæmu inn í veiðina á komandi árum. Loks má nefna að á síðustu árum hefur þorskurinn verið að léttast að meðaltali en núna virðist þessi þróun hafa stöðvast, sem er góðs viti. Meðalþyngdin mælist nú ívið meiri en í fyrra þótt hún sé ennþá nokkru lægri en langtímameðaltal segir til um,” sagði Jóhann.

- Hverju svarar þú þeim fullyrðingum sjómanna að núna sé mun meiri þorskgengd en á síðustu árum og ástandið á miðunum sé ekki í neinu samræmi við mælingar Hafrannsóknastofnunarinnar á stærð þorskstofnsins.

,,Ég held að fiskgengdin og aflabrögðin séu í fullu samræmi við það sem við höfum sagt um ástand þorskstofnsins. Sjómenn eru að veiða úr tiltölulega þokkalegum árgöngum sem komust á legg árið 2000 og á árunum þar á undan. Þetta er vænn og góður fiskur. Við viljum hins vegar styrkja hrygningarstofninn ennþá frekar til þess að tryggja nýliðun í framtíðinni. Það gerum við með því að takmarka sóknina. Þorskárgangarnir frá og með árinu 2001 eru slakir og samkvæmt fyrsta mati á stærð 2007 árgangsins er hann líka slakur, eins og áður kom fram. Við sögðum í fyrra að við þyrftum að fá einhverja sterka árganga inn í stofninn til þess að hann færi að braggast. Forsendan fyrir því að verulegur viðsnúningur verði er auðvitað að sterkir árgangar komi inn,” sagði Jóhann.

Í frétt frá Hafrannsóknastofnun um togararallið kemur fram að mest hafi fengist af þorski djúpt úti af Norður- og Norðausturlandi, í Hvalbakshalla fyrir suðaustan land og á Halamiðum úti af Vestfjörðum. Heildarstofnvísitala þorsks (þyngd eins árs fisks og eldri) hafi hækkað um 12% frá mælingunni 2007, aðallega vegna eldri fisks, en vísitala væri þó lægri en árin 2002-2006. Holdafar þorsksins (þyngd miðað við lengd) sé svipað og undanfarin þrjú ár en þó nokkuð lakara en langtímameðaltal.