mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Togurum lagt og flótti úr sjómannastéttinni?

3. júlí 2008 kl. 08:16

Áframhaldandi þorskkvótaskerðing tilkynnt

„Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að svona mikil þorskkvótaskerðing samfara stórhækkuðu olíuverði kann að leiða til þess að togurum verði lagt í einhverjum mæli. Togari sem ekki hefur heimild til þess að veiða þorsk í blönduðum veiðum verður ekki gerður út. Útgerð hans borgar sig ekki,“ segir Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samtali við Fiskifréttir í dag.

Gunnþór segir að með því að keyra þorskkvótann niður í 130 þúsund tonn annað árið í röð séu menn komnir í þá stöðu að ekki skipti öllu máli hver skerðingin sé í öðrum tegundum því það sé orðið óarðbært að sækja þær einar og sér. Víðir Jónsson skipstjóri á frystitogaranum Kleifabergi ÓF segir í samtali við blaðið að úthlutunin núna sé svo lítil að sjómenn og útgerðarmenn geti ekki með nokkru móti lifað af henni og í kjölfarið verði flótti úr stéttinni.

„Ég veit um fjölda sjómanna sem myndu gjarnan vilja flytja sig yfir í eitthvert annað starf ef þeir gætu og við sem erum búnir að vera í þessu lengi viljum helst ekki að nokkur af okkar niðjum komi nálægt sjómennsku eins og ástandið í greininni er,“ segir Víðir. 

______________________________________

 Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum sem fylgja með Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.