mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tollasvindl norskra skreiðarútflytjenda í Nígeríu

29. október 2009 kl. 12:16

Efnahagsbrotadeild lögreglunnar í Noregi ásamt yfirvöldum tolla- og skattamála og norsku fiskistofunni hafa gripið til sameiginlegra aðgerða gegn allmörgum fiskútflytjendum þar í landi vegna meintra svika í skreiðarviðskiptum við Nígeríu.

Útflytjendurnir eru grunaðir um að hafa flutt út skreið sem þeir skráðu á útflutningspappíra sem þurrkaða þorskhausa til þess að fiskurinn færi í lægri tollflokk. Skreiðin ber 20% innflutningstoll í Nígeríu en þurrkuðu hausarnir ekki nema 10%.

Með þessu háttarlagi er talið að skreiðarútflytjendurnir hafi snuðað nígeríska ríkið um sem svarar hundruð milljóna íslenskra króna í tolltekjur og um leið skekkt samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum útflytjendum sem farið hafa löglega að.

Í frétt á vef norsku fiskistofunnar segir að tveir útflytjendur hafi þegar verið kærðir til efnahagsbrotadeildarinnar. Annar þeirra er sagður hafa stuðlað að því að tolltekjur í Nígeríu hafi minnkað um 4,9 milljónir norskra króna eða jafnvirði um 100 milljóna íslenskra króna. Að auki hafi hann greitt of lítið útflutningsgjald til norska ríkisins.