fimmtudagur, 13. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tómarúm á uppsjávarmarkaði

21. janúar 2016 kl. 12:48

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Viðskiptabann Rússa skapar mikla óvissu á þessu ári.

Viðskiptabann Rússa olli því að vinnsla hérlendis á makríl til manneldis minnkaði um 40% á síðasta ári og verðmætið dróst saman um 60%, að því er fram kom í erindi Teits Gylfasonar sölustjóra uppsjávarfisks hjá Iceland Seafood á markaðsdegi fyrirtækisins. Í íslenskum krónum minnkuðu verðmætin fyrir útfluttan frystan makríl um 11 milljarða króna. Rússar keyptu áður 35.000 tonn af frystum makríl sem finna þarf markað fyrir annars staðar eða setja í bræðslu. 

Ljóst er að viðskiptaþvinganirnar koma enn harðar niður á þessu ári þegar áhrifa bannsins gætir einnig í sölu loðnuafurða. Lítill sem enginn markaður er fyrir þau 30 þúsund tonn af frystri loðnu  sem Rússar keyptu áður en framleiðslugeta Íslendinga á ári er 70.000 tonn. Að auki þarf að ráðstafa á aðra markaði þeim 5.000 tonnum af loðnuhrognum og 35.000 tonnum af síld sem Rússar keyptu áður. 

Sjá nánar frásögn af erindi Teits um ástand og horfur í sölu uppsjávarafurða í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.