mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Torkennilegir þræðir vöktu athygli

Guðsteinn Bjarnason
19. maí 2018 kl. 07:00

Plastþræðir í sýni úr hafinu skammt frá Skagaströnd. MYND/BIOPOL

Örplast finnst reglulega í sýnatökum líftæknifyrirtækisins Biopol á Skagaströnd. Fyrirtækið hefur því ákveðið að taka talningu á örplastþráðum fastari tökum.

Starfsmenn sjávarlíftæknisetursins Biopol á Skagaströnd hafa fundið töluvert magn af örplasti í sýnum sem tekin eru reglulega úr hafinu fyrir utan Skagaströnd. Á meðfylgjandi mynd má sjá það sem finna mátti í einu sýni sem tekið var í byrjun maí.

„Dæmi hver fyrir sig en okkur finnast þessar myndir frekar óhugnarlegar og varpa ljósi á að pastmengun í hafinu er ekki endilega bara vandamál sem snerta aðrar þjóðir og fjarlæg hafsvæði,“ segir Halldór Gunnar Ólafsson, framkvæmdastjóri Biopol.

Biopol hefur fylgst með eðlis- og líffræðilegum þáttum sjávar við Skagaströnd frá árinu 2012 með vikulegum sýnatökum yfir vor- og sumarmánuðina, þar sem hitastig og selta hafa verið mæld á mismunandi dýpi. Einnig hefur verið fylgst með tegundasamsetningu og fjölda svifþörunga ásamt því að sérstök sýni hafa verið tekin til þess að fylgjast með stærð og magni kræklingalirfa.

„Starfsmaður var í upphafi þjálfaður til þess að fara í gegnum lirfusýnin og hefur sami aðili því sinnt þeim talningum frá upphafi,“ segir Halldór Gunnar. „Fljótlega fór þessi samviskusami starfsmaður að veita athygli torkennilegum þráðum í mörgum litum sem sáust undir víðsjánni við lirfutalningarnar. Við nánari athugun kom í ljós að um var að ræða plastþræði sem ákveðið var að telja ásamt kræklingalirfunum.“

„Í vor var síðan ákveðið að taka þessa talningu á plastþráðum alvarlegri tökum í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem plastmengun í hafinu hefur fengið undanfarið,“ segir Halldór Gunnar. „Í dag eru tekin vikulega sérstök sýni til þess að meta magn örplasts í Húnaflóa.“

Sýnatakan fer þannig fram að netháfi með 0,1 millimetra möskvastærð er sökkt niður á 20 metra dýpi og síðan dreginn rólega upp á yfirborðið aftur.

„Við þá aðgerð er áætlað að í gegnum háfinn pressist 1413 lítrar af sjó og allar agnir sem eru stærri en 100 míkron sitji eftir í háfnum.“

Magnið mjög breytilegt
Innihaldi háfsins er síðan safnað í ílát og meðhöndlað á rannsóknastofu BioPol þar sem efni eru notuð til þess að leysa upp öll lífræn efni. Það sem eftir situr er í framhaldinu síað í gegnum síupappír og á honum koma því hugsanlegar plastagnir í ljós.

„Magnið er mjög mismunandi. Stundum fann ég fjóra þræði og stundum sextíu,“ segir Karin Zech, lífefnafræðingur sem hefur sinnt þessum rannsóknum síðan í apríl.

„Þetta ætti samt ekki að koma á óvart því engar skólphreinsistöðvar eru hér á Skagaströnd, og þær eru ekki margar á Íslandi.“

Sýnin eru tekin skammt frá landi nálægt Skagaströnd þannig að búast má við því að þangað berist auðveldlega úrgangur frá bænum.

Karin Zech tók við þessu verkefni af Lindu Kristjánsdóttur, samviskusama starfsmanninum sem Halldór Gunnar minntist á, þegar ákveðið var að leggja meiri vinnu í örplastsrannsóknirnar.

Ruslið í fjörunum
Hvorki Karin né Halldór Gunnar segjast vita til þess að rannsóknir á örplasti í sjó séu stundaðar svo neinu nemi hér á landi, annars staðar en hjá Biopol. Karin segist þó vita af meistaraprófsnema á Ísafirði sem sé að skoða þetta, og þá hefur hún verið í sambandi við íslenska fyrirtækið ReSource International sem hafi skoðað þessi mál, en þó frekar með rannsóknir á affallsvatni og kranavatni í huga en sjó.

Karin er frá Þýskalandi en segist komin hingað til lands af persónulegum áhuga. Hún og maður hennar, sem er frá Skotlandi, hafi gaman af að ganga um fjörur og partur af því áhugamáli snúist um að hreinsa strendurnar.

„Það er mjög pirrandi að sjá allt þetta rusl í fjörunum. Þegar við komum til Íslands hrifumst við af því hve lítið er af rusli hér. Við sjáum það auðvitað hérna, en það er miklu minna en í Skotlandi.“