þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Toyota í túnfiskeldi

31. október 2010 kl. 11:00

Japanski bílaframleiðandinn Toyota hyggst nú hasla sér völl í sjávarútvegi. Toyota ráðgerir að hefja eldi á bláuggatúnfiski innan tíðar. Í fyrstu verða um 10 þúsund túnfiskseiði tekin í eldi á ári.

Toyota er í samstarfi við japanska háskólann Kinki sem sagður er hafa ráðið gátuna um það hvernig unnt sé að láta túnfisk hrygna og klekja út eggjum í eldisstöðvum. Til skamms tíma byggðist allt túnfiskeldi í heiminum á áframeldi, þ.e. veiðum á smáum fiski sem var síðan alinn í kvíum í sláturstærð.

Toyota hefur komið sér upp aðstöðu í landi til að ala túnfiskseiði upp í 5-30 sentímetra stærð. Eftir það verða þau sett í sjókvíar þar sem þau verða alin upp í sláturstærð.

Japanskir eldismenn reikna með því að til að anna eftirspurn markaðarins þurfi að setja um 400-500 þúsund túnfiskseiði í eldi á ári hverju. Toyota hefur því mikla möguleika á því að færa út kvíarnar.

Hér er auðvitað eftir miklu að slægjast fyrir bílaframleiðandann. Stórir túnfiskar eru gjarnan slegnir á nokkrar milljónir hver á japönskum uppboðsmarkaði þegar aðstæður eru góðar. Hæsta verð fyrir einn túnfisk á þessu ári samsvarar um 20 milljónum íslenskra króna, eða jafnvirði tveggja nýrra Toyota Land Cruiser jeppabifreiða hér á landi!