föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Trackwell nær fótfestu í Kanada

12. nóvember 2017 kl. 13:00

MV Sivulliq serm er í eigu Baffin Fisheries styðst við búnað frá Trackwell. Mynd/Trackwell

Útgerðarfélög í Kanada kaupa skráningarkerfið Hafsýn – frekari viðskiptatækifæri mikil

Íslenska tæknifyrirtækið Trackwell hefur hafið sölu á skráningarkerfi sínu – Hafsýn – til Kanada. Fyrir er afladagbók Hafsýnar þegar í notkun hjá 70 aðilum í Noregi.

Rafræn aflaskráning krafa í Kanada
Fyrir nokkru tók kanadíska fyrirtækið Ocean Choice International kerfi Trackwell í notkun í öllum vinnsluskipum fyrirtækisins, og nú í október var Hafsýn sett upp hjá Baffin Fisheries sem er með höfuðstöðvar í Iqaluit í Kanada. Fyrirtækið rekur fjögur skip og stundar veiðar og vinnslu á grálúðu og úthafsrækju.

Kanadísk fiskveiðiyfirvöld hafa tilkynnt um skylduinnleiðingu á rafrænum afladagbókum á næstu tveimur árum.

Steingrímur Gunnarsson, sölustjóri Hafsýnar, segir mikil tækifæri felast í því. Stefnt er að áframhaldandi sjálfvirknivæðingu í Hafsýn og auknu upplýsingaflæði frá búnaði skips og veiðum við miðlæg landkerfi.   

Samvinna við íslenskar útgerðir
Frá því að reglugerð var sett um rafræna skráningu afladagbóka á Íslandi hefur Trackwell í samvinnu við íslenskar útgerðir unnið að þróun Hafsýnar. Hafsýn er skráningarkerfi um borð í fiskiskipum sem heldur utan um upplýsingar á veiðum og ráðstöfun afla um borð og miðlar til útgerðar í landi í rauntíma. Kerfið skráir sjálfkrafa staðsetningar, umhverfisþætti, siglda vegalengd og hraða, ásamt veiðum og afla.

Þessar upplýsingar auk sögulegra gagna eru samhliða aðgengilegar skipstjórnarmönnum og starfmönnum útgerðar í landi.  Einnig eru dæmi um útgerðir sem veita upplýsingum úr Hafsýn til sinna viðskiptavina til að tryggja gagnsæi og staðfestingu á sjálfbærum og ábyrgum veiðum.