mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tryggja þarf öryggi allra íslenskra hafna

Svavar Hávarðsson
14. maí 2018 kl. 07:00

Að sjá hjálmlausa menn við vinnu á hafnarsvæðum landsins er nú orðið sjaldgæft – en var algengt hér áður fyrr. Mynd/Axel Jón Fjeldsted

Margar hafnir hér á landi hafa ekki gildar viðbragðsáætlanir – þvert á reglur þar um.

„Það er engin tilviljun að máltækið að falla á milli skips og bryggju sé rótfast í íslenskri tungu,“ segir Gísli Gíslason, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands enda slysasaga tengd höfnum landsins kunn. Mikill árangur hefur þó náðst í að auka öryggi hafnanna eins og um borð í skipum landsmanna.

Þetta sagði Gísli í upphafi erindis síns á ráðstefnu Slysavarnafélagsins Landsbjargar um öryggismál sjófarenda nýlega, en hann er jafnframt hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Fjölfarnir staðir

Hafnir landsins eru fjölfarnir staðir – ef aðeins hafnarstarfsmenn eru taldir þá eru þeir um það bil 250 talsins. Þeir hafa eftirlit með 44 kílómetrum af bryggjum á Íslandi, en hafnarsjóðirnir eru 36 talsins. Þessi lengd bryggjukanta jafngildir ferðalaginu frá miðbæ Reykjavíkur upp á Akranes. Aðeins hluti hafnasvæðanna eru lokaðir af, svo að í minnsta lagi er helmingurinn opinn almenningi.

„Hafnir eru fyrst og síðast atvinnusvæði en þær hafa aðdráttarafl. Síðustu árin hefur umferðin inn á hafnarsvæðin verið að breytast og aukist síðust árin. Það er auðvitað hafsækin ferðaþjónusta sem hefur breytt ýmsu, og bryggjurúnturinn lifir enn góðu lífi,“ sagði Gísli og bætti við að frá árinu 1911 hafa 43 látist eftir að bifreiðar hafa ekið fram af bryggjum. Nú sem fyrr er straumur fólks á hafnarsvæði áhættuatriði sem má aldrei taka af léttúð.

„Slysin eru miklu fleiri þar sem menn hafa sloppið með skrekkinn. Það var svo í lok síðasta árs að Hafnasamband Íslands og Samgöngustofa tóku saman höndum og sendu erindi á allar hafnir um að gera áhættumat og úrbætur í framhaldinu,“ sagði Gísli og nefndi fjölmargt sem til greina kemur sem mikilvægt sé að hafnirnar skoði.

„Mín skoðun er sú að allt verði aldrei leyst svo mögulegt sé að fyrirbyggja öll slys, en jafnframt gríðarlega mikilvægt að hafnirnar séu á varðbergi. Bæði gagnvart breyttum kröfum og breyttum aðstæðum – jafnvel nýjum hættum. Það skiptir ekki máli hvort höfnin er lítil eða stór – verkefnin blasa við okkur á öllum þessum svæðum jafnt.“

Breytingar í öryggismálum

Gísli sagði frá þeim breytingum sem hafa orðið í öryggismálum þeirra sem vinna á hafnarsvæðunum – á tiltölulega stuttum tíma. Inni á svæðunum starfa fyrirtæki sem hafa sett sér öryggisreglur sem þau fylgja af mikilli einurð.

„En það eru brotalamir þarna eins og í öðru. Það koma inn á svæðin verktakar og aðrir þjónustuaðilar, og það er kannski grátt svæði hver á að sjá til þess að þeir fylgi nauðsynlegum og sjálfsögðum öryggisreglum inn á svæðunum. Það er ekki lengur hallærislegt að nota flotvesti eða hjálm – þetta er að breytast. Það er engu að síður enn verk að vinna, sérstaklega í höfnum landsins þegar þróunin um borð í skipunum er höfð til samanburðar. Við megum ekki – í orðsins fyllstu merkingu – eftirbátar þeirra sem eru að gera vel,“ sagði Gísli og bætti við að samkvæmt reglum skuli starfsmenn hafna skuli hafa kennslu og þjálfun við notkun á björgunartækjum.

Vottuð öryggisstjórnun

„En þar er lína sem við þurfum að fara yfir og tileinka okkur miklu agaðri vinnubrögð varðandi öryggismál,“ sagði Gísli og bætti við að þegar Faxaflóahafnir fengu vottað umhverfisstjórnunarkerfi að það var margt klár öryggismál. Því munu Faxaflóahafnir setja sér vottað öryggisstjórnunarkerfi í von um að þróunin verði sú sama hjá öðrum höfnum landsins. Það sé ekki einfalt – því fylgi töluverð umsýsla en mergurinn málsins sé að það skili árangri.

„Ég er sannfærður um það að með vottaðri öryggisstjórnun í höfnum landsins þá megi fækka áhættuþáttunum verulega og komið þannig í veg fyrir mörg af þeim slysum sem eiga sér stað í dag. Það má ætla að öryggismál séu í lagi að mestu leyti í höfnum landsins – en það að ætla að það sé þannig getur falið í sér stærstu mistökin. Við þurfum að vera viss,“ sagði Gísli.

Viðbragðsáætlanir vantar

Töluverðar kröfur eru gerðar á hafnir landsins – til dæmis um viðbragðsáætlanir varðandi mengun og sóttvarnir. Eins vegna hættu á sjóslysum.

„En það eru of fáar viðbragðsáætlanir í gildi. Þarna er verk að vinna að það séu skarpar viðbragðsáætlanir sem taka til alls landsins. Við sjáum þetta t.d. í fjölgun stórra skemmtiferðaskipa – við verðum að vera viðbúin. Landhelgisgæslan hefur gert það sem hún getur til að undirbúa sig á sjó, en við – hafnirnar – þurfum að gera betur. Í landi þurfum við að skerpa áherslur okkar og skipulag. Það skiptir ekki máli hvort höfnin er lítil eða stór – áhættan er alls staðar sú sama og stafar að starfsmönnum hafna, sjómönnum og almenningi. Því er brýnt að blása til sóknar á hafnarsvæðum hvernig við bregðumst við,“ sagði Gísli.