þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Túnfiskeldi sem Íslendingar standa að: Hrognum klakið út í fyrsta sinn eftir hrygningu í eldiskvíum

16. október 2009 kl. 15:00

Mikilvægum áfanga var náð í túnfiskeldi í heiminum í sumar er túnfiskur í sérhæfðum eldiskvíum hjá Kali Tuna í Króatíu hrygndi og hrognunum var síðan klakið út í rannsóknarstofu. Kali Tuna er dótturfyrirtæki Atlantis Group hf. sem er í meirihlutaeigu Íslendinga, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.

Óli Valur Steindórsson, framkvæmdastjóri Atlantis Group hf., sagði í samtali við Fiskifréttir að þetta væri í fyrsta sinn sem hrognum túnfisks væri klakið út án hormónagjafar. Til þessa hefur Kali Tuna veitt um tveggja ára túnfisk í Miðjarðarhafi og tekið fiskinn til áframeldis í nokkur ár. Túnfiskurinn fer á markað í Japan. Mjög gott verð fæst fyrir hann eða í kringum 6.500 krónur á kílóið. Óli Valur sagði að Kali Tuna seldi um 2 þúsund tonn af túnfiski á ári.

,,Mikil umræða hefur verið um það að bláuggatúnfiskurinn sé ofveiddur og dregið hefur úr veiðum á honum. Það er því mjög mikilvægt ef hægt verður að stunda eldið alveg frá grunni, þ.e. frá fiski sem klakið hefur verið út í stöðinni, í stað þess að treysta eingöngu á veiðar. Gera má ráð fyrir því að innan 5 ára verði slíkt eldi orðið umtalsverður þáttur í starfseminni,“ sagði Óli Valur Steindórsson.