sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Túnfiskveiðiheimildir Íslands aukast verulega

8. júní 2018 kl. 06:00

Íslendingum er heimilt að veiða 84 tonn af bláuggatúnfiski á þessu ári. MYND/ÖRN SÆVAR HÓLM

Fer úr 52 tonnum í 140 árið 2020

 

Úthlutaðar aflaheimildir Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT) til Íslands úr stofni Austur-Atlantshafs bláuggatúnfisks hafa næstum tvöfaldast milli ára. Þær voru 52 tonn fyrir síðastliðið ár en nú er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 84 tonn miðað við afla upp úr sjó.

Umsóknafrestur um veiðarnar rennur út í dag en ekki fengust upplýsingar hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hvort umsóknir hefðu borist. Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur á sviði auðlindanýtingar ráðuneytinu, segir að heildarkvótinn sem Atlanthafs túnfiskveiðiráðið gefur út hafi verið aukinn og auk þess hafi hlutur Íslands úr stofninum aukist úr 0,23% í 0,29%.

ICCAT ákvað á fundi á síðasta ári að auka veiðiheimildir á bláuggatúnfiski úr 28.000 tonnum fyrir yfirstandandi ár í 32.000 tonn á næsta ári og 36.000 tonn fyrir árið 2020. Kvóti Íslands fer úr 84 tonnum á yfirstandandi ári í 112 tonn á næsta ári og 140 tonn fyrir árið 2020. Á sama tíma fer kvóti Evrópusambandsins úr 15.850 tonnum á yfirstandandi ári í 19.360 tonn fyrir árið 2020. Kvóti Noregs fer úr 104 tonnum á þessu ári í 200 tonn fyrir árið 2020.

Af heimildunum nú verður 80 tonnum úthlutað til veiða með línu og 4 tonnum ráðstafað til að mæta áætluðum meðafla íslenskra skipa á bláuggatúnfiski. Heimilt er að stunda línuveiðarnar á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember.

„Við erum því að vonast til þess að einhver sjái sér færi á því að fara til þessara veiða fyrst kvótinn er orðinn þetta mikið hærri,“ segir Brynhildur.

Vísi hf. í Grindavík var veitt heimild til veiðanna til þriggja ára og nýtti sér þær árin 2015 og 2016 með línuskipið Jóhönnu Gísladóttur en fór ekki til túnfiskveiða í fyrra. Aðrir sýndu veiðunum ekki áhuga.