laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvær milljónir tonna í lögsögu Íslands

Guðsteinn Bjarnason
10. september 2019 kl. 15:45

Í makrílleiðangri sumarsins var lífmassi makríls metinn á 11,5 milljónir tonna. Rúmlega 17 prósent var í íslenskri lögsögu.

Vísitala makríls í lögsögu Íslands mældist tvær milljónir tonna í uppsjávarleiðangri sumarsins. Þetta er rúmlega 17 prósent heildarlífmassans í Norðaustur-Atlantshafi, sem var metinn á 11,5 milljónir tonna.

Mældur lífmassi mælist því 85 prósent meiri þetta árið en á síðasta ári á heildarsvæði leiðangursins, en hækkunin á íslensku hafsvæði nemur 76 prósentum.

Eins og áður hefur fram komið er þetta mesti lífmassi sem mælst hefur síðan gagnaröðin/leiðangurinn hófst árið 2009. Mestur þéttleiki mældist í norðvestur Noregshafi, en við Ísland var þéttleikinn mestur sunnan og suðaustan við landið, líkt og verið hefur undanfarin ár en aftur á móti var minna af makríl fyrir vestan land.

Einnig mældist mun minna af makríl í grænlenskri landhelgi en verið hefur síðustu árin.

Þetta er meðal niðurstaðna úr sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 28.júní til 5.ágúst 2019. Meginmarkmið leiðangursins var að meta magn uppsjávarfiska í Norðaustur-Atlantshafi að sumarlagi.