föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveggja ára bundinn við stýrishúsið

Guðjón Guðmundsson
10. júní 2018 kl. 08:00

Tinna og Egill við Sjófuglinn í Västervik í Svíþjóð. MYND/HAG

Egill Ólafsson og Tinna Gunnlaugsdóttir sigla um heimsins höf á sögufrægri skútu

Sjófuglinn er 15,4 metra löng eikarskúta, smíðuð árið 1925 í Altenwerder í Þýskalandi. Sjófuglinn er  annað heimili og hugðarefni leikarahjónanna Egils Ólafssonar og Tinnu Gunnlaugsdóttir. Þau keyptu skútuna í Lemmer í Hollandi árið 2014, en lítil sem engin saga fylgdi í kaupunum. Þau hafa þó smámsaman viðað að sér heimildum og meðal annars komist að því að hún hafi verið tekin eignarnámi af nasistum í  síðari heimsstyrjöldinni og notuð til að flytja kost til hermanna á kafbátalægjum á fljótinu Elbu.

Þau hjón voru í óða önn að pakka saman þegar blaðamaður kíkti í heimsókn og fyrir talsvert löngu búin selja húsið sitt á Grettisgötu. Nú eru þau búin að minnka við sig og þar að auki komin með annan fótinn til  Stokkhólms þar sem þau eru í færi við skútuna. Egill segist með þessu vera að loka hringnum. Hann er af sjómönnum og útvegsbændum kominn m.a úr Landeyjum og Njarðvík og Tinna rekur ættir til sjómanna í Höfnum á Reykjanesi þaðan sem forfeður móður hennar, Herdísar Þorvaldsdóttur heitinnar, bjuggu. Viðsnúningurinn frá því að vera stór hluti af menningarlífi landsmanna yfir í upprunann gæti vart verið táknrænni.

Skírður sonur – Stalín dauður

Egill er alnafni afa síns. Hann var fæddur 1891, stýrimaður og skipstjóri og fylgdi þar í fótspor föður síns, Ólafs Jafetssonar útvegsbónda í Stapakoti í Innri-Njarðvík. Þar gerði Ólafur langafi Egils út sex báta þegar mest var. Sagt var að annar hver fiskur sem barst á land í Innri-Njarðvík á þessum árum hefði komið af bátum Ólafs.

„Ólafur sótti í öllum veðrum. Hann var af miklum sjósóknurum kominn m.a. úr Landeyjunum. Þar voru að mestu hafnleysur og sjómenn þurftu að vera lagnir við að lenda opnum bátunum í gegnum brimskaflana. En þeir fórust líka margir sjómennirnir þar um slóðir. Það voru þekkt örlög margra og þar á meðal voru konur,“ segir Egill.

Afinn Egill var skútusjómaður og svo var hann líka á fyrstu mótorbátunum. Egill og bræður hans, Gunnar og Jafet, voru allir stýrimenn og skipstjórar. Þeir stunduðu sjómennsku frá Reykjavík, Akranesi og víðar. Systur þeirra bræðra giftust upp á Skaga og þegar elsti sonur Egils; Ólafur kemst til manns flutti hann með fjölskyldu sína á Akranes. Ólafur hneigðist snemma til sjómennsku en líka vinstrimennsku og hreifst af  Stalín eins og fleiri á þeim tíma. Ólafur var á B.v. Jóni Baldvinssyni árið 1953 þegar honum barst svohljóðandi keyti frá eiginkonu sinni: „Skírður sonur. Stalín dauður.“ Sonurinn var Egill Ólafsson, seinna þjóðþekktur leikari og tónlistarmaður.

Tinna kokkur á 90 tonna bát

Tveggja ára fór Egill fyrst á sjó. „Það voru engin barnaheimili á Skaganum. Pabbi gerði út lítinn bát með frænda sínum, Ólafi Elíassyni, og ég var bara hlekkjaður við stýrishúsið meðan róið var. Mig rámar í þennan bát, sennilega vegna þess að ég hef síðan séð hann á myndum. Þetta voru fyrstu kynni mín af sjómennsku en síðan hef ég að mestu verið landkrabbi að því undanskildu að ég fór einn túr á síld rétt 16 ára gamall,“ segir Egill.

Hann réri þó stundum með pabba sínum og afa út í Faxaflóabugtina þegar hann var 10-12 ára gamall. Þeir voru með rauðmaganet og skakrúllu. Svo voru teknar „pokaendur“. Pokaendur var svartfugl sem var skotinn úti á Sundunum, settur í poka (sjálfsagt vegna þess að ekki þótti æskilegt að vera að veifa skotvopnum í bugtinni) þessi fugl var matreiddur á Mánagötunni þar sem fjölskyldan bjó eftir að hún flutti til borgarinnar.

Tinna kynntist sjónum fyrst þegar hún vann í fiski á Seyðisfirði eitt sumar á menntaskólaárunum og sumarið eftir á Súgandafirði. Þar var gengið í öll störf, hvort sem það var að vera á borði í frystihúsinu, panna gráðlúðu eða vinna við uppskipun. Tinna endaði seinna sumarið á að fara einn túr sem kokkur á 90 tonna báti frá Ísalfirði og fannst nóg um. Kokkurinn hafði forfallast á síðustu stundu og Tinna hjóp í skarðið.

„Þetta byrjaði  heldur nöturlega. Strax og fór að velta varð mér bumbult og svo var allt óhreint í pottaskápnum frá síðasta túr. En ég beit þetta af mér og tókst að standa mína plikt við kabyssuna.”

Egill á farsælan feril að baki sem tónlistarmaður og leikari til 44 ára. En alltaf blundaði í honum áhugi á sjónum. Fyrir nokkrum árum uppgötvaði hann að það væru síðustu forvöð að komast í Stýrimannaskólann. Afi hans hafði útskrifast úr gamla stýrimannaskólanum við Stýrimannastíg í Reykjavík. Egill ákvað að taka „pungaprófið“ svokallaða úr Stýrimannaskólanum afa sínum til þóknunar. Eins og barnabarnið var Egill afi líka músíkelskur og óperuunnandi.

„Ég kláraði pungaprófið og hafði alltaf í huga að kaupa mér eitthvert horn og róa hérna út í Bugtina. En það varð aldrei af því. Ég hafði líka ánægju af því að skoða fallega báta og skútur í tímaritum og blöðum velta fyrir mér möguleikunum, en gerði svo ekkert meira með það.  Svo var það ekki fyrr en ég var orðinn rétt rúmlega sextugur að við hjónin vorum stödd í Hollandi og vorum að labba við höfnina að skoða báta og skip, að Tinna spurði hvort við ættum ekki að athuga hvað þeir væru með á sölu, bara svona til gamans og úr því við værum í bátalandinu Hollandi. Eftir að hafa farið á netið og skoðað, var þó eiginlega bara einn bátur sem mér fannst koma til greina. Ég vildi trébát með tvö möstur og seglabúnað, en líka með kröftuga vél, mótor-kútter.  Bátuinn var í bænum Lemmer í Fríslandi og við gerðum okkur ferð þangað uppeftir. Mér varð starsýnt á bátinn strax og ég sá hann,  því lagið minnti mig á bát sem afi hafði verið með og hét Garðar. Garðar var kútter með inndregnum skut og nánast beinu stefni. Þetta var 24-25 tonna bátur, smíðaður hjá Marsilíusi á Ísafirði. Báturinn í höfninni í Lemmer var áþekkur að stærð og lögun.“

Skúta á góðu verði

Bátasalinn sagðist vissulega vera með þennan bát til sölu, en hann hefði eiginlega legið vanræktur í höfninni í Lemmer svo árum skipti. Eigandinn ætlaði alltaf að sigla honum en það varð aldrei neitt úr því og loks ákvað hann að setja hann á sölu. Báturinn hefði áður verið í eigu hollensks manns sem hafði farið illa að ráði sínu í fjárhagslegu tilliti. Síðasti eigandinn tók bátinn því eiginlega upp í skuld en treysti sér svo ekki til að sigla eða kom því bara einfaldlega ekki í verk.

„Tinna er mjög fylgin sér. Hún las það út úr svipnum á mér að ég var greinilega heillaður. Þá spurði hún hvort ég héldi að við tvö gætum siglt þessu fleyi. Í framhaldinu sagði hún skipamiðlaranum að við værum að hugsa um að gera tilboð í bátinn með þeim fyrirvara að ástand skipsins yrði fyrst kannað. Við áttum síðar sama dag stefnumót við vini okkar í Amsterdam og í gegnum þau komst ég í kynni við mann sem er formaður Kútterafélagsins í Hollandi. Hann var svo elskulegur að hann kannaði ástand bátsins fyrir mig. Hann sagði að reglan væri nú sú að sá sem hygðist kaupa bát væri alltaf viðstaddur ástandskönnunina en hann gæti gert gróft ástandsmat.“

Í ljós kom að ástand skipsins var ótrúlega gott, en þó ljóst að það þyrfti að skipta út ýmsum hlutum  enda gamalt skip. Formaður Kútterafélagsins sagði Agli að uppsett verð væri ekki hátt en í ljósi þess að lítið sem ekkert væri vitað um sögu bátins og margt sem hann gæti alls ekki séð eða metið, væri rétt að bjóða nokkuð lægra verð. Þau hjónin lögðu því fram tilboð talsvert undir uppsettu kaupverði en fengu engin viðbrögð við því í tæpa þrjá mánuði.

„Við vorum eiginlega búin að afskrifa þetta þegar skipamiðlarinn hringdi allt í einu og spurði hvort tilboðið stæði enn. Því svöruðum við játandi. Þá  gekk þetta fljótt og vel fyrir sig. Við fengum bátinn á spottprís. Þrátt fyrir að ýmislegt ætti enn eftir að koma í ljós, leit báturinn vel út. Dekkið var nýtt og hús og innréttingar afburða fallegar, allt úr tekki og nostrað við öll smáatriði. Auk þess fylgdi honum, rafdrifið ankerisspil, radar, gps-tæki, talsstöðvar, olíufíring og nýleg, aflmikil vél; Cummins (5.9 l.), fimmblaða skrúfa og eins voru nýjar dælur í bátnum.“

Í míglekri skútu til Danmerkur

Egill ákvað að sigla skútunni til Danmerkur í því ástandi sem hún var, þar sem hann var búinn að fá vilyrði fyrir hana í tréskipaslipp í Egersundi á Suður-Jótlandi. Þar var hugmyndin að taka hana upp og gera við og endurnýja það sem þyrfti.

„Þetta var í endaðan mars og í raun óðs manns æði, allra veðra von á þessum árstíma og lítið vitað um ástand bátsins fyrir neðan sjólínu. Tinna komst ekki með mér og ég varð að finna á staðnum hugrakkan mann til að sigla með mér.“

Egill snaraði sér upp á kaja í Lemmer og spurði þar hóp manna hvort einhver hefði nennu í það að sigla með sér til Danmerkur, svo gott sem hér og nú. Menn létu orðið ganga og það gaf sig fljótlega fram Hollendingur sem samþykkti að sigla með Agli en hann færi ekki einn. Þeir yrðu tveir, það væri öruggara. Egill réði þá á staðnum og saman sigldu þeir skútunni í einni beit á vaktaskiptum á þremur sólarhringum til Danmerkur.

Báturinn míglak að aftan og Agli leist raunar illa á blikuna. Leiðindaveður var á leiðinni eins og getur orðið í Norðursjónum.

„Við komumst þó alla leið og auðvitað var það mikil reynsla fyrir mig nýgræðinginn, verandi skipstjóri í minni fyrstu ferð. Hollendingarnir höfðu siglt um öll heimsins höf og voru bara nokkuð ánægðir með kallinn.“

Í slippnum í Egersund fékk Egill að fylgjast með ferlinu framanaf og vera handlangari. Honum var sagt að endursmíðin yrði að gerast í tvennu lagi. Afturhlutinn var fyrst tekinn í gegn, bönd og plankar og svo framhlutinn. Þau Tinna voru svo bæði mætt síðar um vorið, en þá höfðu verið settir í skútuna um 40 metrar af nýjum plönkum og skipt út 5 böndum. Þau tóku til óspilltra málanna og nostruðu við skútuna í nokkrar vikur, áður en lagt var úr höfn.

„Fyrsta sumarið var auðvitað ákveðin eldskín. Við vorum bæði að læra á bátinn og bara yfirleitt það að sigla. Við sigldum Eystrasaltið alla leið upp til Stokkhólms og enduðum svo í Gamleby í Smálöndum. Öll þessi handtök sem þú lærir ekki almennilega fyrr en þú tekur á því.  Til dæmis að vinda upp segl í öllum veðrum, leggjast að bryggju þar sem er þröngt og margir bátar fyrir og ekki síður að navigera á milli skerja. En þetta tókst allt alveg ótrúlega vel. Við erum bæði sjóhraust og njótum þess að sigla.“

Tinna segist í raun bara hafa treyst á að Egill kynni þetta allt.

„Ég vissi eiginlega ekkert hvað ég var að fara út í. Ég bjóst allt eins við því að verða sjóveik og sjóhrædd, en það varð ekki raunin, þvert á móti. Mér finnst þetta eitthvað það skemmtilegasta sem við hjónin höfum tekið okkur fyrir hendur. Þetta er ekki bara líkamleg áskorun, þetta er líka andleg áskorun. Þessi stöðugi útvörður og vakt á öllu sem gerist í glímunni við náttúruöflin. Svo reynir þetta líka á samvinnu og samhug, meira en nokkru sinni áður. Við erum jú bara tvö og verðum að geta treyst algerlega á hvort annað.”

Eftir að hafa siglt tvö sumur var skútan tekin aftur í slipp í Egersund til að endurnýja stefni og framhluta skipsins. Í það voru settir 70 metra af plönkum og það reyndi það dálítið á fjárhaginn.

„Við erum samt á því að við höfum sloppið vel. Allt í allt hefur þetta ekki reynst okkur dýrara en að koma okkur upp ágætum sumarbústað. Það höfum við aldrei gert en nú eigum við fljótandi sumarbústað með öllum þægindum og reglubundnu nýju útsýni upp á hvern dag.“

Í þjónustu Hitlers

„Báturinn er núna í toppstandi og sennilega betri en þegar hann var nýr. Mig hefur lengi langað að grafast betur fyrir um sögu hans og ég setti mynd inn á vefsíðu danska trébátaklúbbsins með fyrirspurn um það hvort einhver kannaðist við gripinn eða gæti vitað hvaðan hann væri. 8 eða 9 mánuðum síðar fékk ég viðbrögð við myndinni frá Þjóðverja sem kvaðst þekkja bátinn. Seinna gerði hann sér ferð til okkar í slippinn í Egersundi til að taka bátinn út ásamt forsvarsmanni skipasafnsins í Flensborg. Þeir töldu ekki nokkurn vafa leika á uppruna bátsins.  Núna á ég eigendasöguna og ljósmynd af bátnum þegar hann er í slipp, sennilega 1941 eða 1942. Áður hafði hann verið Norðursjávarkútter á fisk- og rækjuveiðum, svo einhverntíma í lok síðasta áratugar síðustu aldar var hann tekinn algerlega í gegn og innréttaður sem skemmtiskúta.”

Það eru aðeins þrír bátar þessarar gerðar eftir í heiminum eftir því er Egill telur sig hafa komist að.  Einn er í eigu hafnsögusafnsins í Hamborg og annar í eigu Þjóðverjans sem mætti til þeirra Tinnu og Egils í  Egersundi. Þriðji báturinn er svo í eigu Shiffsamtsins í Kiel. Bátunum hafa verið gerð skil í bókum því þeir þóttu völundarsmíð hin mesta. Bátur Egils og Tinnu var smíðaður fyrir Þjóðverja sem átti hann í 27 ár þar til þýski herinn tók hann eignarnámi. Báturinn er plankabyggður úr eik og þykktin á borðunum er næstum tvær tommur.

„Ég er með lágt gaffalrigg og get verið með sjö segl uppi; tvö toppsegl, stórsegl, messasegl, tvær fokkur (cleefer) og genúasegl sem fer út á bugspjótið. Hann er 18,4 metrar að lengd með bugspjóti. Fyrir fullum seglum hefur ganghraðinn mestur orðið tæpar 8 mílur. Það er vinna að sigla fyrir seglum og það tekur tíma að læra á það. Ég fór á seglanámskeið í Holbæk meðan báturinn var í slippnum. Það fór að stórum hluta til fram innanhúss. Þetta er talsvert handverk sem þarf að læra og eins er gott að vera opinn fyrir því hvenær báturinn fer að gera samkomulag við vind og öldu – það er músík.“

Fljótandi minjasafn

Egill og Tinna hafa siglt Sjófuglinum undanfarin ár og úthaldið hefur ekki verið styttra en þrír mánuði á ári og í seinni tíð fjórir. Þau leggja þó yfirleitt alltaf að á kvöldin, eða liggja við akkeri og stundum stoppa þau í nokkra daga, þar sem þeim þykir sérstaklega fallegt eða gott að vera.  Egill segir ekki kostnaðarsamt að gera út bátinn. Þau fái oft frítt lægi fyrir bátinn við sjóminjasöfnin, sem eru víða í Svíþjóð og Danmörku, þar sem prýði þykir að bátnum. Mikill kúltúr er í kringum gömlu eikarskúturnar og bregst ekki að menn koma og jafnvel safnast saman á bryggjunum til að spyrja um bátinn og segja sínar sjóferðarsögur.

„Báturinn er fljótandi minjasafn og heimili okkar í leiðinni. Við erum með tvær káetur og höfum haft tólf manns sitjandi til borðs í messanum þegar mest hefur verið. Það geta sofið 4 til 5 um borð, jafnvel 6 ef sófinn er tekinn með í reikninginn. Við erum þó yfirleitt bara tvö. Síðastliðið sumar sigldum við í gegnum Gautakanalen og fórum í gegnum 64 skipalyftur. Við sigldum Sjófuglinum til að mynda í 123 metra hæð yfir sjávarmáli í einni skipalyftunni. Við erum að pæla í því núna að sigla í Eystrasaltinu austur eftir Finnska flóa alla leið til Pétursborgar. Ég skýt á að siglingin sé svipuð og frá Noregi til Íslands. Eystrasaltið er feikilega stórt innhaf. Við höfum mikið siglt þar en líka í Fjónska eyjahafinu, Kattegat og víðar.  Fjónska eyjahafið er erfitt því þar þarf að sigla í lænum með boðum, baujum og kardinálum. Það er fallegt þarna og gaman að koma í hafnirnar. Alls staðar sem við komum er tekið vel á móti okkur. Lífið er þannig vaxið að maður þarf að gera eitthvað úr því sjálfur - það kemur ekki til manns. Tinna hefur verið drífandi í því að framkvæma hlutina eins og hún hefur kyn til.“

Ert þú Íslendingurinn?

Sjófuglinn er í Västervik á austurströnd Svíþjóðar. Þar er trébátaslippur sem er í eigu Egils og Kerstin Bergström. Fyrir tilviljun varð Egill ágætur vinur Egils Ólafssonar. Honum hafði verið bent á að tala við Bergström upp á pláss fyrir bátinn til vetrarlegu. Bergström á tvö tví- og þrímöstruð kaupskip, Linja byggð 1890 og Vega byggð 1907. Hann gerir aðra skútuna út, mest til skemmtisiglinga, en hin er  í slippnum til gagngerðrar endurbyggingar. Bergström tók Agli fálega í fyrstu, en á siglingu nærri Västervik degi síðar mættu þau Egill og Tinna einstaklega fallegri skonnortu fyrir fullum seglum og reyndist þar vera annað skip Berströms hjónanna, Vega. Sími Egils hringdi á sömu stundu og á hinum endanum var Bergström: „Ert þú Íslendingurinn sem hringdi í Egil Bergström í gær? Já, ég tók eftir flagginu og ímyndaði mér að þetta gæti ekki verið nokkur annar maður sem við mættum þarna áðan. Það eru heldur ekki mörg tréskip sem maður mætir nú orðið. Heyrðu, þetta er frágengið.“

Síðan hafa þau haft Sjófuglinn mörg undanfarin ár inn af Västervik. Bryggjan var reyndar að hruni komin en Egill og Tinna tóku að sér að endurbyggja hana með aðstoð starfsmanna í slippnum. Og þarna una þau hag sínum vel.