þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveir bátar kanna þorskgengd við Jan Mayen

Svavar Hávarðsson
23. maí 2019 kl. 14:14

Mynd/Kr. Ben/Mynd úr safni

Rannsóknaveiðar Norðmanna á þorski við Jan Mayen eru hafnar - þar hefur veiðst vel af fiski ættuðum frá Íslandi.

Eftir að fréttir bárust af því að línubáturinn Loran hefði landað fallegum þorski af miðunum við Jan Mayen í fyrra ákváðu norsk stjórnvöld að gefa tveimur bátum kost á því að halda þar áfram rannsóknaveiðum. Útgerðir átta báta sóttu um en þeir sem hrepptu hnossið voru einfaldlega dregnir úr hatti þar sem nöfn átta báta voru fyrir. Annar báturinn hefur þegar hafið veiðar við Jan Mayen. 

Eins og Fiskifréttir sögðu fyrst frá í nóvember í fyrra þá mokveiddi norski línu- og netabáturinn Loran þorsk og grálúðu við Jan Mayen síðsumars – eða 450 tonn af þorski alls. Eftir þriðju löndun af miðunum voru send sýni af aflanum til norsku Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá úr því skorið úr hvaða þorskstofni veiðin væri, enda góð þorskveiði á þessum miðum lítt þekkt. 

Samtök útgerðarmanna í Noregi, Fiskebåt, sögðu reyndar að þetta væri í fyrsta sinn á seinni tímum sem svo mikið veiðist af þorski, og grálúðu, á þessu hafsvæði. Því var það talið mikilvægt að vísindamenn norsku hafrannsóknastofnunarinnar, Havforskningsinstituttet, skæri úr um hvort þorskurinn væri úr íslenska þorskstofninum eða Barentshafsþorskstofninum.

Þriðjungur frá Íslandi

Í lok janúar lágu niðurstöðurnar fyrir. Bæði erfðaefnisrannsóknir og rannsóknir á kvörnum úr þorskinum sem veiddist við Jan Mayen sýna að þetta voru þorskar bæði úr íslenska þorskstofninum og Barentshafsþorskur. Hluti Barentshafsþorsksins var þó stærri.

Bjarte Bogstad, sérfræðingur hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, staðfesti í skriflegu svari til Fiskifrétta að erfðafræðirannsókn stofnunarinnar hafi náð til 86 fiska og af þeim reyndust 29 íslenskir, 51 af stofni Barentshafsþorsks en sex til þess stofns sem á rætur að rekja til strandsvæða Noregs. Rannsóknir á kvörnum gáfu ekki viðbótarupplýsingar hvað íslenskan þorsk varðar þar sem norsku vísindamennirnir höfðu ekki kvarnir úr íslenskum þorski til samanburðar. 

Þegar þetta lá fyrir var jafnframt greint frá því að stofnunin hugðist gera fleiri rannsóknir og haldið í leiðangur á miðin við Jan Mayen til að leita frekari gagna.

Tveir á veiðar

Nú eru þessar rannsóknir hafnar með leyfum tveggja línubáta – Geir II og Nesbakk – og er sá fyrrnefndi þegar kominn á miðinn. Fiskeribladet greinir frá því á dögunum að Geir hefur þegar fengið ágætis veiði af þorski og hafa staðfest að þar hrygnir hann. Annars eru þessar rannsóknarveiðar þannig hugsaðar að bátarnir tveir fá leyfi til að fara í tvo túra við Jan Mayen hvor. Þeim verður dreift yfir árið, svo sjá megi þróun veiðanna eftir árstíma. 

Gamlar sagnir

En það liggur sem sagt fyrir að hluti þessa þorsks sem finnst þarna norður frá er ættaður héðan. Fiskifréttir ræddu í haust við Einar Hjörleifsson, sérfræðing hjá Hafrannsóknastofnun, sem sagði lítið til af gögnum um veiðar við Jan Mayen. Samskiptin á milli hafsvæða við Ísland og Grænland séu hins vegar staðreynd og vel þekkt. Í rannsóknaleiðöngrum við Jan Mayen hefur fundist eitthvað af ýsu, ufsa, steinbít og grálúðu, fyrir utan loðnu og síld,“ sagði Einar en nefndi jafnframt að skrif Bjarna Sæmundssonar, fiskifræðings, frá fjórða áratugnum séu athyglisverð í þessu samhengi.

Í grein í Ægi frá 1933 sem Bjarni skrifaði talar hann um að Norðmenn hafi merkt þorska við Jan Mayen árið 1930 og þrír þeirra hafi endurheimst á Íslandsmiðum; við Norðurland og Vestmannaeyjar,“ segir Einar sem sýnir að samgangur fisks á milli Íslands og Jan Mayen hefur verið sannaður með rannsóknum.

Einar segir að Hafrannsóknastofnunin hér muni án efa fá niðurstöður systurstofnunar sinnar á þeim sýnum sem nú eru til rannsóknar.

Þorskur merktur á ný

Fiskifréttir sögðu einnig frá því nýlega að Hafrannsóknastofnun hefur aftur tekið til við að merkja þorsk í rannsóknaleiðöngrum sínum, og að hluta til þá vegna fréttanna frá Jan Mayen. 

Merktir voru 1800 þorskar um borð í rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni þegar skipin voru í stofnmælingu botnfiska í mars. Að þessu sinni var þorskur því aðeins merktur fyrir vestan og norðan land. Í haust er áætlað að halda merkingunum áfram en þá verður ungþorskur í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi merktur þegar Bjarni Sæmundsson mun vera í rækju- og umhverfisrannsóknum fyrir vestan.

Í frétt Hafrannsóknastofnunar frá því í mars segir að þorskur sem merktur hefur verið við Ísland hefur sjaldan endurheimst fyrir utan íslenska lögsögu. Þorskur merktur við Grænland hefur hins vegar endurheimst við Ísland en í mismiklum mæli eftir árum. 

„Nú herma fréttir að íslenskur þorskur sé farinn að veiðast við Jan Mayen. Því er nauðsynlegt að merkingar séu stundaðar reglulega þannig að hægt sé að fylgjast stöðugt með því hvort breytingar verði á fari þorsks við Ísland.“

Fyrst árið 1904

Fyrstu merkingar á þorski við Ísland voru gerðar árið 1904 og frá þeim tíma hefur þorskur verið merktur reglulega. Frá árinu 2010 hefur hins vegar mjög lítið af þorski verið merkt á Íslandsmiðum. Merkingar veita mikilvægar upplýsingar um far fiska. Þannig hafa merkingar á þorski sem gerðar voru á 40 ára tímabili (1948 til 1996) gefið vísbendingar um hvernig kynþroska fiskur dvelur um hríð á hrygningarslóð og leggur að hrygningu lokinni af stað í ætisgöngur norður á bóginn. Þó fyrri rannsóknir hafi gefið mikilvægar upplýsingar um far, þá hafa umhverfisbreytingar í hafinu við Ísland undanfarin ár haft áhrif á útbreiðslu ýmissa sjávartegunda við landið. Því er mikilvægt að varpa á nýjan leik ljósi á far þorsksins við þessar breyttu aðstæður, er mat Hafrannsóknastofnunar.