mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö skip HB Granda við loðnuleit

30. janúar 2014 kl. 09:10

Loðna

Leitað skipulega vestur með kantinum úti fyrir Norðurlandi.

Faxi RE og Ingunn AK fóru frá Vopnafirði á þriðjudagskvöldið og leita nú að loðnu úti fyrir Norðurlandi. Að sögn Hjalta Einarssonar, sem er skipstjóri á Faxa í þessari ferð, hafði leitin engan árangur borið um miðjan dag í gær, miðvikudag, þegar rætt var við hann á heimasíðu HB Granda en leitað verður áfram næstu daga, a.m.k. á meðan veður leyfir.

Að sögn Hjalta hafa Faxi og Ingunn leitað skipulega á svæðinu frá Vopnafjarðargrunni og síðan vestur eftir norðurkantinum.

,,Við erum nú komnir á austanverðan Kolbeinseyjarhrygginn og það eina sem lóðað hefur á fram að þessu er dauft ,,ryk“. Hvort það er áta eða loðna er ekki gott að segja en magnið er a.m.k. ekki mikið,“ segir Hjalti en að hans sögn eru skipin nú komin á það svæði þar sem loðnuveiðar hafa oftast verið stundaðar í desembermánuði og í byrjun janúar.

,,Ef ástandið væri eðlilegt þá hefði loðnan verið búin að ganga austur með kantinum og suður með Austfjörðum. Þar hefur hún átt það til að hverfa en svo hefur hún skilað sér upp á grunnin í Lónsbugtinni eða i næsta nágrenni. Þar ætti hún að vera núna,“ segir Hjalti en skipstjórar Faxa og Ingunnar eru í stöðugu sambandi við skipstjóra togara sem eru á veiðum allt frá Vestfjarðamiðum og austur og suður um að SA-landi.