mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Týnd beita er tapaður fiskur

22. maí 2014 kl. 09:00

Leysitækið sem fælir fuglinn frá skipum.

Nýtt leysitæki fælir allan fugl burt þegar línan er lögð

Nýtt og byltingarkennt leysitæki hefur verið þróað til að fæla burt sjófugla.Tækið getur bjargað lífi fugla og kemur í veg fyrir að beita tapist, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Hollenska fyrirtækið SaveWave og norska fyrirtækið Mustad hafa þróað í samstarfi fyrstu fuglafæluna sem notar leysigeisla til reka burt sjófugla. Fuglinn á það til að festast á krókunum við línuveiðar og drukkna þegar hann reynir að næla sér í beitu.

Tækið var prófað á Íslandsmiðum í vetur um borð í Tjaldi SH með góðum árangri. Jónas Jónasson, skipstjóri á Tjaldi SH, segir í samtali við Fiskifréttir að tækið hafi reynst afbragðs vel. Fuglinn forðist skipið eins og heitan eldinn og haldi sig langt, langt í burtu.

Fuglar eru oft aðgangsharðir þegar lína er lögð ef ekkert er að gert. „Ég fylgdist eitt sinn með ritu sem var auðþekkt af dökkum bletti á bringunni. Þessi eini fugl náði 35 beitum af lögninni á um 25 mínútunum. Þegar mest er getur fuglinn tekið 2 til 4 þúsund beitur í lögn. Þetta gæti þýtt allt að 2ja tonna minni afla. Týnd beita er tapaður fiskur,“ segir Jónas.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.