mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ufsakvótinn við Noreg dregst saman um 14,6%

6. nóvember 2012 kl. 08:00

Ufsi

Minni ufsakvóta verður úthlutað árið 2013 en Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til

Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur ákveðið 140 þúsund tonna kvóta á ufsa á næsta ári. Þetta er um 24 þúsund tonna samdráttur frá árinu í ár, eða um 14,6%. Kvótinn er einnig 24 þúsund tonnum lægri en ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Hér er um að ræða ufsa sem heldur sig norðan 62°N. Þrátt fyrir að veiðar á honum hafi verið minni en útgefinn heildarkvóti heldur hrygningarstofninn áfram að minnka. Ráðgjöfin í ufsa hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu er í samræmi við varúðarreglur sem ákveðnar voru árið 2007. Ráðuneytið telur að þessar reglur hafi gefist vel og að ufsinn sé nýttur á sjálfbæran hátt.

Hins vegar er bent á að stofnstærðarmat sé alltaf óvissu háð og þess vegna sé nauðsynlegt að taka enn frekar tillit til ástands stofnsins. Þá er vitnað í norsku hafrannsóknastofnunina sem telur hugsanlegt að gögn hafi verið tekin með inn í útreikninga Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem kunni að hafa leitt til ofmats á ufsa við Noreg.