mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um 2,4 milljarða aflaverðmæti í strandveiðum

4. september 2015 kl. 09:46

Á strandveiðum. Mynd/Óðinn Magnason

Alls stunduðu 630 bátar strandveiðar og meðalafli í löndun var um 573 kíló

Gera má ráð fyrir því að strandveiðar hafi skilað tæpum 2,4 milljörðum króna í aflaverðmæti í sumar miðað við meðalverð á fiskmörkuðum, samkvæmt samantekt Fiskifrétta.  

Strandveiðum lauk formlega um síðustu mánaðamót. Megnið af strandveiðiafla sumarsins var þó komið á land fyrir miðjan ágúst þegar veiðar á þremur svæðum af fjórum voru stöðvaðar. Svæði D, frá Hornafirði til Borgarbyggðar, var þó opið allan mánuðinn.

Alls nam strandveiðiaflinn í ár um 8.570 tonnum. Aflahæsti strandveiðibáturinn í sumar er Hulda SF með rúm 40 tonn.  Í öðru sæti er Sæunn SF með tæp 39 tonn og í því þriðja er Fengur ÞH með rúm 38 tonn.

Alls stunduðu 630 bátar strandveiðar í sumar þá fjóra mánuði sem þær voru heimilar. Mestur var fjöldinn í júlí en þá voru 606 bátar að veiðum.

Meðalafli í löndun var um 573 kíló í sumar sem er aðeins meira en í fyrra en þá komu bátarnir með um 540 kíló að meðaltali eftir róðurinn. Heildarafli á bát var að meðaltali tæp 14 tonn í ár.

Sjá nánar samantekt í nýjustu Fiskifréttum.