mánudagur, 16. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um 3.500 tonn af síld til Vopnafjarðar

20. október 2008 kl. 12:49

Landað var úr Lundey NS á Vopnafirði í gær, alls tæplega 1.400 tonnum, og fór sá afli til bræðslu.

Þá er Faxi RE á landleið með rúmlega 800 tonn af síld og Ingunn AK með um 1.300 tonna afla, að því er fram kemur á heimasíðu HB Granda.

Mikil lægð er nú stödd austur af landinu og horfur á brælu næstu tvo dagana í hafinu milli Íslands og Noregs.

Gert er ráð fyrir að Ingunn og Lundey haldi næst til síldveiða við Noreg en Faxi reyni við íslensku sumargotssíldina á heimamiðum.

Nú eru eftir um 9.200 tonn af hinum norsk-íslenska síldarkvóta HB Granda. Þar af er heimilt að veiða um 3.400 tonn í norskri lögsögu og 3.100 tonn má færa yfir á næsta ár gerist þess þörf. Heldur hefur saxast á síldarkvótann upp á síðkastið þótt tíðarfarið hafi gert mönnum erfitt fyrir við veiðarnar.