þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um helmingi meiri veiði

Guðjón Guðmundsson
30. apríl 2020 kl. 10:40

Grásleppa

Verð á afurðum skyggir á góða veiði - núna er verð á kíló af heilli grásleppu að þokast upp í 230 krónur en það var 332 krónur í fyrra á sama tíma.

Um helmingi meiri veiði hefur verið á grásleppu á þessari vertíð en hún var á sama tíma í fyrra þótt færri bátar hafi verið á veiðum framan af vertíð. Nú eru 153 bátar á grásleppu sem er nánast sami fjöldi og var í fyrra. Veidd hafa verið yfir 3.600 tonn.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir auðvitað gleðiefni þegar veiðar gangi vel en það sem skyggi núna á gleðina sé verð á afurðunum.

„Það hefði verið óskandi að afurðarverðið væri hið sama og í fyrra en sú er ekki raunin. Núna er verð á kíló af heilli grásleppu að þokast upp í 230 krónur en það var 332 krónur í fyrra.“

Þetta er lækkun upp á 30% sem skýrist af erfiðleikum við sölu á sjálfum fisknum sem hefur eingöngu verið seldur frystur til Kína.

„Nýárshátíðin brást alveg í Kína vegna Covid-19 faraldursins og neyslan var þar af leiðandi mun minni. Auk þess eiga Kínverjar birgðir af frystri grásleppu. Þeir hafa því beðið með að kaupa og panta grásleppu og við verðum að sjá hvað setur,“ segir Örn.

Verð sem innlendir aðilar greiða fyrir grásleppuna taki mikið mið af þessari stöðu. Fjórðungur af verðmynduninni hefur verið grásleppan sjálf. Örn kveðst ekki vita til þess að verð á hrognum til kavíarframleiðslu hafi lækkað. Auk þess hefði hann talið að gengisfallið hefði átt að mynda verðþrýsting upp á við. Evran sé nú 14% hærri en hún var í byrjun mars.

„Stundum hafa verið greiddar uppbætur á verð og við vonum auðvitað að svo verði nú. Svo er það líka spurning hvað markaðurinn tekur við. Miðað við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er gert ráð fyrir veiðum á 4.600 tonnum og veiðarnar nú stefna hraðbyri í það. Ég hef miklar áhyggjur af grásleppukörlum í innanverðum Breiðafirði sem mega hefja veiðar 20. maí af þessum sökum. Ég óttast að veiðarnar verði komnar langleiðina upp í það heildarmagn sem leyfilegt verður að veiða. Þetta er vandamál sem er að koma upp núna og við höfum ekki enn séð lausn á því,“ segir Örn.