sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umdeild vinnubrögð ráðherra í dragnótamálinu vekja athygli erlendis

16. ágúst 2010 kl. 11:25

Fjallað er í opnugrein í nýjasta hefti tímaritsins Fishing News International um þá umdeildu ákvörðun sjávarútvegsráðherra að takmarka dragnótaveiðar án þess að nokkur vísindaleg rök liggi þar að baki, að því er fram kemur á vef LÍÚ. Yfirskrift greinarinnar má lauslega þýða: „Reglugerð sem byggir á pólitík en ekki vísindum bitnar á dragnótabátum" (e. Politics wins over science as seine netters fall foul of policy).

Í greininni er rætt við talsmann dragnótamanna og einn vísindamannanna sem unnu skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um áhrif dragnótaveiða á botndýralíf í Skagafirði. „Tillögurnar voru kynntar í byrjun maí og við áttum ekki fund með ráðherranum fyrr en 11. maí þrátt fyrir að hafa óskað eftir fundi með honum í heilt ár. Við höfðum því aðeins tíma til 20. maí til að undirbúa mál okkar. Okkur var lofað að við kæmum að borðinu þegar málið yrði rætt frekar en við það loforð var ekki staðið," segir Friðrik G. Halldórsson, talsmaður dragnótamanna, í greininni í  Fishing News International.

Friðrik segir einnig í grein blaðsins að það hafi vakið furðu að ráðherra hafi stungið skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar undir stól og síðar lagt áherslu á að gera sem allra minnst úr gildi hennar. Hann segir dragnótamenn hafi óskað eftir faglegri umfjöllun um málið en ráðherra hafi enn ekki orðið við þeirri beiðni. „Málsmeðferð sjávarútvegsráðuneytisins hefur verið í hæsta máta ófagleg í þessu tilviki og ráðherranum ekki til álitsauka," segir Friðrik einnig í blaðinu.

Í greininni er einnig rætt við Harald A. Einarsson, fiskifræðing og veiðarfærasérfræðing  hjá Hafrannsóknastofnuninni.  Hann segir þar m.a. að það séu „af því bara vísindi" að halda því fram að línuveiðar séu vistvænni en aðrar. Hann segir það órannsakað hversu stór hlutfall aflans sleppi af línunni áður en hún er dregin og hvað verði um þann fisk. Haraldur getur þess að hátt hlutfall skyndilokana tengist línuveiðum. Það kalli á frekari rannsóknir.

Greinina má lesa hér í heild.