laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umdeildar tillögur um vigtun, ís og slóghlutfall

10. febrúar 2011 kl. 10:49

Þorskur í ís.

Starfshópur á vegum sjávarútvegsráðuneytis leggur til 4-6% fast íshlutfall, 10% slægingarhlutfall og endanlega vigtun á hafnarvog

Mikil óánægja ríkir innan sjávarútvegsins vegna nýrra tillagna starfhóps á vegum sjávarútvegsráðuneytisins um breytingar á reglum um vigtun. Hugmyndir ganga út frá því að endanleg vigtun fari fram á hafnarvog og leyfi til endurvigtunar felld niður. Fastur frádráttur vegna íss verði 4% hjá dagróðrarbátum og 6% hjá útilegubátum. Þá er gert ráð fyrir að breyta reglum um slóghlutfall; það verði 10% en er nú 16% fyrir þorsk. Hugmyndirnar voru kynntar á fundi með hagsmunaaðilum á þriðjudaginn. Flestir hagsmunaaðila sem tóku til máls gagnrýndu hugmyndirnar og sögðu þær skref afturábak, að því er fram kemur á vef Landssambands smábátaeigenda.

Í nýjustu Fiskifréttum er rætt við fulltrúa útvegsmanna sem leggjast gegn þessum hugmyndum. Telja þeir að íshlutfallið sé alltof lágt og geti leitt til verri meðhöndlunar á afla. Raunverulegt íshlutfall sé oftast á milli 10-20%. Réttast sé að beita úrtaksvigtun til að finna íshlutfallið. Einnig er 10% slóghlutfall gagnrýnt og bent á að slóg geti verið allt að 30% á hrygningartímanum. Þá er talið að reglur um endanlega vigtun á hafnarvog hér heima drepi niður útflutning á ísfiski í gámum.

Sjávarútvegsráðuneytið birtir minnisblað á vef sínum þar sem hugmyndir að nýju reglunum eru kynntar. Það segir m.a.: Í ljósi nauðsynlegrar kælingar afla þarf að gera ráð fyrir að frádráttur vegna íss verði mismunandi hár eftir því hvort um er að ræða dagróðrabát eða útileguskip. Með vísan til athugana Matís ohf. um nauðsynlega ísun afla til að gæði hans séu tryggð og með tilliti til þeirrar framkvæmdar sem segja má að almennt tíðkist um borð í bátum og skipum við ísun afla má gera ráð fyrir að heimilaður frádráttur vegna íss verði: dagróðrabátar 4% og útileguskip 6%.

Hafrannsóknastofnunin leggur til að meginregla verði sú að öllum afla verði landað slægðum og að ákvarðað heildaraflamark verði miðað við slægðan fisk. Ef af einhverjum ástæðum þykir óhjákvæmilegt að vigta aflann óslægðan verði miðað við 10% slóghlutfall fyrir þorsk, ýsu og ufsa. Sambærilegt hlutfall fyrir aðrar tegundir verði metið af Hafrannsóknastofnuninni.

Ljóst er að undanþegnar frá endanlegri vigtun á hafnarvog verða þær fisktegundir uppsjávarfiska sem er dælt beint úr veiðiskipi inn í vinnsluhús enda fer sá afli ekki yfir hafnarvog af augljósum ástæðum, segir ennfremur í minnisblaði á vef sjávarútvegsráðuneytisins.