laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umdeilt þótt margir vilji kvóta

Guðsteinn Bjarnason
20. febrúar 2021 kl. 13:00

Grásleppulöndun á Húsavík. Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti. MYND/Hafþór Hreiðarsson

Sitt sýnist hverjum um grásleppufrumvarp

Hátt í fimmtíu umsagnir hafa borist við grásleppufrumvarpið, sem nú er til meðferðar í atvinnuveganefnd eftir fyrstu umræðu á þingi.

Frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra um veiðistjórn grásleppu, sandkola og hryggleysingja er umdeilt. Umsagnir hagsmunaaðila eru alls 48 og verður hér gripið niður í fáeinar þeirra.

Landssamband smábátaeigenda (LS) vísar í samþykktir aðalfunda síðustu tvö ár þar sem öllum hugmyndum um kvótasetningu var hafnað. Þess í stað leggur LS til ákveðnar breytingar eða lagfæringar á núverandi fyrirkomulagi.

Varla útgerðarhæfar

Bátafélagið Ægir í Stykkishólmi segir það hins vegar „staðreynd að a.m.k. 90% grásleppusjómanna í Stykkishólmi vilja grásleppuna í aflamark tafarlaust.“ Jafnframt segja Ægismenn að væri grásleppuveiðum „stjórnað með aflamarki myndu sjómenn alltaf vita að hverju þeir ganga hverju sinni og þær ólympísku veiðar sem tíðkast hafa um árabil þar sem fyrstur kemur fyrstur fær myndu heyra sögunni til.“

Varðandi nýliðun í grásleppuveiðum segja Ægismenn: „Hún er engin og mun áfram verða þannig við núverandi aðstæður þar sem veiðarnar teljast varla útgerðarhæfar, kostnaður við að hefja veiðar er mikill í tækjum og netum.“

Ákveðinn ómöguleiki

Axel Helgason, fyrrverandi formaður LS, styður einnig kvótasetningarfrumvarpið og telur að þær breytingar „muni auðvelda útgerðaraðilum að fást við þær áskoranir sem blasa við í meðaflamálum, markaðsmálum og í arðbærni rekstrar þeirra sem þessar veiðar hafa stundað.“

Hann bendir á að skoðanakannanir og undirskriftalistar hafi sýnt að meirihluti grásleppuveiðimanna sé fylgjandi kvótasetningu. Þá segir hann það ekki standast skoðun að líkja saman samþjöppun aflaheimilda í krókaaflamarki og grásleppu: „Grásleppan veiðist í mjög misjöfnu magni yfir mjög takmarkað tímabil sem er mislangt eftir svæðum og árum og því er ákveðinn ómöguleiki fólginn í mikilli samþjöppun heimilda sem sést ef skoðaðar eru aflatölur síðastliðinna þriggja áratuga.“

Vænir starfslokasamningar

Halldór Gunnar Ólafsson, sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri BioPol ehf. á Skagaströnd, er hins vegar meðal þeirra sem eru alfarið á móti kvótasetningu og segir hana rýra möguleika nýliða til að hefja smábátaútgerð.

„Á stöðum eins og Skagaströnd hafa heimamenn verið að fjárfesta í smábátum og horft til strandveiða, grásleppuveiða og byggðakvóta til þess að skapa fyrirtækjum sínum grundvöll. Grásleppuveiðar hafa þar skipt miklu máli enda verð á grásleppuleyfum verið yfirstíganlegt fyrir minni útgerðir og nýliða innan smábátaútgerðar,“ segir Halldór.

Hann segir að engum þurfi að koma á óvart „að núverandi handhafar grásleppuleyfa séu að stærstum hluta fylgjandi hlutdeildarsetningu. Eignarhald á varanlegum aflaheimildum hefur í flestum tilfellum tryggt mönnum væna “starfslokasamninga” þegar menn ákveða að hætta útgerð. Þeir hagsmunir geta eðlilega haft mikil áhrif á afstöðu þeirra hvað hlutdeildarsetningu varðar.“

Fiskistofa þarf svigrúm

Fiskistofa styður frumvarpið en gerir þó athugasemd við að lögin verði látin taka gildi strax.

„Þar sem grásleppuvertíðin hefst í mars er ljóst að lítið eða ekkert svigrúm er til að hlutdeildasetja grásleppu fyrir næstkomandi vertíð,“ segir í umsögn Fiskistofu. „Verði frumvarpið að lögum er nauðsynlegt að haga gildistöku laganna þannig að Fiskistofu verði ekki gert að úthluta aflahlutdeild í grásleppu í upphafi vertíðar eða í miðri vertíð.“

Greinin birtist fyrst í Fiskifréttum 18. febrúar.