föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umfangsmiklar síldarrannsóknir strax eftir áramót

20. desember 2011 kl. 09:50

Síldveiðar utan við Stykkishólm (Mynd: Áhöfnin á Hoffelli SU).

Síldin á fjörum við Stykkishólm hefur líklega drepist af völdum sýkingarinnar.

„Við förum í umfangsmiklar síldarrannsóknir strax í byrjun janúar,“  segir Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjastofnasviðs Hafrannsóknastofnunar í samtali á vefnum skessuhorni.is „Rannsóknir á síldinni hafa tafist nokkuð vegna verkfalls skipverja á hafrannsóknaskipunum en Dröfnin verður við rannsóknir á Breiðafirði eftir áramótin.“

Þorsteinn segir allar líkur á að síldin, sem er að reka á fjörur núna í nágrenni Stykkishólms, hafi drepist vegna sýkingar í stofninum, þótt hann geti ekkert fullyrt um hvort einhverju hafi verið sleppt niður frá bátum eða ekki. „Í raun höfum við verið hissa á hve lítið hefur orðið vart við dauða síld þarna, hingað til, því miðað við sýkinguna hefðu um 100 þúsund tonn af síld átt að drepast árlega. Það fer svolítið fyrir því.“

Aðspurður um hvort ekki hefði verið eðlilegra að veiða meira af síldinni frekar en að takmarka veiðarnar þegar sýkingin uppgötvaðist segir Þorsteinn að miðað við hlutfall sýktrar síldar yrði að horfa til þess að fyrir hverja eina síld sem veidd væri dræpust tvær heilbrigðar.

 „Þegar það kom í ljós í vor að yfir 90% síldar í Grundarfirði var sýkt, þá sendum við nótaskip þangað til veiða, en þegar það kom var síldin horfin þaðan. Þegar hlutfallið er orðið svo hátt er þetta orðin spurning um að taka þessa síld í burtu og bræða hana. Svo verðum við líka að taka tillit til þess að um 90% síldarstofnsins hefur haldið sig í Breiðafirði síðustu ár,” segir Þorsteinn Sigurðsson í viðtalinu á vefnum skessuhorn.is