mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ungir flatfiskar í malarnámum

30. september 2011 kl. 13:20

Myndavélasleðinn settur út. (Mynd af vef Hafró)

Áhrif efnistöku í Faxaflóa á ungfiska rannsökuð með sérsmíðuðum myndavélasleða

Í síðustu viku var farinn rannsóknaleiðangur á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar í Hvalfjörð á hraðfiskibátnum Ebba AK. Tilgangurinn var að kortleggja búsvæði flatfiskaungviðis á malarhjöllum í firðinum og var notast við nýsmíðaðan myndavélasleða sem hannaður var sérstaklega í því augnamiði. Kortlagningin er hluti af verkefni sem unnið er í samstarfi við Björgun ehf. þar sem ætlunin er að kanna áhrif efnistöku á lífríki hafsbotnsins, að því er fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.

Mikil efnistaka (af sandi og möl) hefur átt sér stað af botni Faxaflóa undanfarna áratugi en áhrif þessarar vinnslu á lífríkið hafa lítið verið rannsökuð. Ljóst er að sandfjörur við Ísland eru mjög mikilvæg uppeldissvæði fyrir flatfiska á fyrsta ári. Einnig eru líkur á því að svipuð búsvæði neðan fjörunnar séu þeim mikilvæg sem uppeldissvæði, eftir að ungfiskur leitar frá fjöru og út á meira dýpi. Í þessu sambandi ríkir óvissa um áhrif efnistökunnar á afkomumöguleika seiða þegar þau leita niður á djúpið.

Á fyrrgreindan sleða voru festar tvær vídeóvélar, ljósmyndavél og leiftursljós. Sleðinn var síðan dreginn eftir botninum á hægri ferð og hægt var að fylgjast með ferð sleðans á skjá um borð í bátnum. Fremst á sleðanum er keðja sem dregst í sandinn og við það lyftast flatfiskaseiði sem leynast á botninum og nást þannig á mynd. Á myndbandsupptökunum er síðan hægt að telja og mæla seiðin. Ætlunin er að mynda botninn á vinnslusvæðunum og síðan á óhreyfðum svæðum til samanburðar.

Sleðinn virkaði vel og náðust ágætar myndir í leiðangrinum. Á næstunni verður unnið úr gögnunum og næstu skref ákveðin í framhaldi af því.

Leiðangursmenn voru Björn Gunnarsson,leiðangursstjóri, og Haraldur A. Einarsson. Skipstjóri var Eymar Einarsson.