sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

?Þungu fargi af okkur létt?

28. febrúar 2008 kl. 06:41

Verðmæti loðnuafurða HB Granda námu 2,4 milljörðum króna í fyrra. Ef loðnuveiðar hefðu ekki verið leyfðar á ný hefðu tekjur félagsins skerst verulega í ár.

„Það er þungu fargi af okkur létt. Við erum nú fullir bjartsýni og ég er sannfærður um að loðnan á eftir að skila okkur miklum verðmætum það sem eftir lifir vertíðar,“ sagði Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda hf., í samtali við Viðskiptablaðið í gær, eftir að loðnuveiðar höfðu verið heimilaðar á ný. Eggert sagðist einnig vera þess fullviss að kvótinn yrði aukinn þegar mælingum á loðnunni lyki.

Loðnuveiðar voru stöðvaðar á fimmtudaginn í liðinni viku þar sem ekki hafði þá tekist að mæla veiðistofn loðnunnar. Hafrannsóknastofnun ráðlagði veiðar á ný í gær en jafnframt var lagt til að kvótinn yrði að sinni minnkaður í 100 þúsund tonn en hann var 122 þúsund tonn fyrir stöðvun veiðanna. Mikið er í húfi að meiri loðna mælist því meðalloðnuvertíð hefur skilað um 12 milljörðum króna í þjóðarbúið undanfarin ár.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði um sjávarútvegsmál í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér.