mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unnið að endurbótum Cape Race

Guðjón Guðmundsson
3. mars 2019 kl. 09:00

Cape Race við Bótarbryggju. Að baki má sjá skúrinn og gámana. MYND/JÓN PÁLL

Skúrar risnir til bráðabirgða á Bótarbryggju

 Erlendir eigendur skipsins Cape Race hafa fengið leyfi hafnaryfirvalda til að setja upp skúr og gáma á Bótarbryggju við Grandagarð til að sinna frekari viðgerðum innan í skipinu. Það hafði áður verið í slippnum til viðgerða.

Aðstaðan á Bótarbryggju hefur vakið athygli því óvenjulegt er að sjá mannvirki rísa á bryggjunum í Reykjavíkurhöfn þar sem athafnarými er yfirleitt af skornum skammti. Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna segir að eigendur skipsins hafi fengið leyti til bráðabirgða að koma sér upp þessari aðstöðu og hún verði aðeins til nokkurra vikna. Þeir hyggjast uppfæra káetur og aðra innviði skipsins í takt við nútímakröfur.

Breytt í rannsóknaskútu

Cape Race var smíðaður 1963 í Kanada og var fyrsti stáltogarinn sem smíðaður var í skipasmíðastöð George T. Davie & Sons í Quebec. Þetta er úthafstogari sem hefur verið breytt í könnunar- og rannsóknaskútu. Skipið var upphaflega hannað til veiða allan ársins hring þar sem veður gerast hvað verst og er sérstaklega styrkt til siglinga í hafís. Eldsneytistankar eru um borð sem gera skipinu kleift að sigla yfir 7.000 mílur í beit. Cape Race getur því þverað Atlantshafið tvisvar sinnum án þess að þurfa að tanka olíu. Í skipinu er aðstaða fyrir tólf farþega í fjórum káetum og leið þess liggur gjarnan til afskekktra svæða í vísinda- og kvikmyndaleiðangra. Aftast í skipinu eru káetu áhafnar.

Haustið 2017 keypti Nikolaus Gelpke, eigandi bókaútgáfunnar Maverlag í Hamborg, skipið til þess að tryggja varðveislu þess. Það fór í umfangsmikið viðhald í slippnum í Reykjavík á síðasta ári.