sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppboð á makrílkvóta ekki skoðað í bráð

20. maí 2015 kl. 12:21

Makríll um borð í veiðiskipi. (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Atvinnuveganefnd hefur borist umsögn frá norskum prófessor sem mælir með uppboðsleið

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingi, segir að uppboð á makrílkvóta verði ekki skoðað sérstaklega að svo stöddu. Torbjörn Trondsen, prófessor við háskólann í Tromsö í Noregi, hefur skilað umsögn um málið til nefndarinnar. Þetta kemur fram á vef RUV.

Uppboð fæli í sér að hæstbjóðandi fengi nýtingarrétt kvóta í stað þess að honum sé úthlutað á grundvelli veiðireynslu líkt og nú stendur til.

„Við höfum ekki náð að skoða það sérstaklega og geri ekki ráð fyrir að það verði gert með svo stuttum fyrirvara. Það er eitthvað sem þarf að skoða við endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu,“ segir Jón. Frumvarp Sigurður Inga Jóhannssonar, sjávarútvegsráðherra, hefur mætt mikilli andstöðu hjá flestum stærstu hagsmunaaðilum sem og almenningi.

Trondsen hefur sagt kosti uppboðsleiðarinnar vera að komið sé á samningum milli eiganda auðlindarinnar og þeim sem hyggjast nýta hana. Markaður skapist sem ákvarði þann hluta auðlindarentunnar sem renni til eigandans og þann hluta sem renni til leigjandans.

Ein algengustu rökin gegn uppboðsleiðinni er þau að kvótinn safnist á hendur fárra stórra fyrirtækja sem hafi sterka stöðu fyrir. Trondsen segir auðvelt að koma í veg fyrir það með því að setja reglur á markaði og skipta útboði jafnvel eftir landshlutum.