laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppbygging fiskistofna getur tekið allt að 20 árum

2. mars 2011 kl. 15:24

Fiskar

Að mati aðalráðgjafa Bandaríkjastjórnar í fiskveiðistjórnun

Uppbygging fiskistofna er langtímaverkefni sem tekið getur 10 og jafnvel allt að 20 árum í vissum tilvikum. Þetta var á meðal þess sem kom fram í máli Steve Murawski á ráðstefnu Hafrannsóknastofnunarinnar sem haldin var í síðustu viku undir yfirskriftinni Lifandi auðlindir hafsins - langtíma stefnumótun og aflareglur. Frá þessu er greint á vef LÍÚ.

Murawski gegnir stöðu prófessors við háskólann í Suður-Flórída og hefur jafnframt verið aðalráðgjafi Bandaríkjastjórnar í fiskveiðistjórnun. Bandaríkjamenn nota kvótakerfi við stjórnun fiskveiða, sem svipar til þess fyrirkomulags sem notað er hérlendis. Þeir hafa ásamt Íslendingum verið í fylkingarbrjósti þeirra þjóða sem getið hafa sér gott orð fyrir ábyrga stjórn fiskveiða.

Í erindi Murawski kom fram að Bandaríkjamenn fylgdu mjög vel skilgreindri nálgun við stjórn veiðanna. Í skilgreiningunni endurspegluðust grunnþættir á borð við sjálfbærar veiðar og arðbæra nýtingu auðlinda, samhliða verndun fiskistofna og langtímastefnu um kjörafrakstur þeirra. Við nálgunina væri einnig horft til mikilvægis bestu fáanlegu vísindaþekkingar hverju sinni, uppfærslu tölfræðigagna um veiðar, jafnræðis á milli einstakra ríkja (innan Bandaríkjanna), mikilvægis þeirra svæða sem byggja afkomu sína á fiskveiðum jafnframt því sem stöðugt væri stefnt að því að auka öryggi og draga úr stjórnunarkostnaði.

Murawski sagði fiskveiðistjórnun eilífa baráttu við að nýta stofna með ábyrgum hætti án þess að ganga samhliða á aðra stofna, sem veiddust sem meðafli og væru viðkvæmari en sú tegund sem sóst væri eftir. Þá rakti hann einnig hvernig markmið um kjörafrakstur fiskistofna í stað hámarksafraksturs hefðu gerbreytt afkomu í greininni. Með því að fylgja stefnu um kjörafrakstur hefði úthaldsdögum fækkað um 70% með tilheyrandi afkomubata útgerða.