þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppfærður flugleiðsögubúnaður kominn í TF-LIF

8. janúar 2019 kl. 15:05

Ekki fengust lengur varahlutir í gamla búnaðinn sem var fyrir löngu orðinn úreltur.

Um miðjan nóvember var ráðist í umfangsmikla uppfærslu á flugleiðsögubúnaði TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, og var kanadíska fyrirtækið Heli One fengið til verksins.  Flugvirkjar hafa undanfarnar vikur unnið dag og nótt við breytinguna á vélinni sem er nú loksins tilbúin með nýjan fullkomnari flugleiðsögubúnað. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gæslunni. Þar segir jafnframt:

Hann er með öflugri gagnagrunni en sá gamli og er vottaður fyrir nútíma flugleiðsögu. Það er óhætt að segja að tími hafi verið kominn á breytinguna en fyrir uppfærsluna var einungis hægt að fljúga vélinni í dagsbirtu þar sem ekki fengust lengur varahlutir í gamla búnaðinn sem var fyrir löngu orðinn úreltur. 

Því var mikið kappsmál að uppfæra vélina og koma henni í nútímalegt horf en verkið var bæði umfangsmikið og tímafrekt. Um mikið framfaraskref er að ræða fyrir vélina sem hefur þjónað þjóðinni með góðum árangri frá árinu 1995 og mun gera áfram næstu árin. Vélin er þegar komin í  notkun og áhöfn hennar æfði með áhöfninni á varðskipinu Þór í morgun.